Alþingisvaktin

Þjóðremba Framsóknarflokksins

Þjóðremba er tvíeggja sverð í höndum stjórnmálamannsins. Með henni getur pólitíkusinn kitlað ákveðinn hóp fólks og sankað að sér kjánaatkvæðum. Aftur á móti leggst hún illa í flest sæmilega skynsamt fólk.

Með því að sveipa þjóðrembuna sakleysislegum klæðum má koma í veg fyrir að hún falli í grýttan jarðveg hjá almenningi. Þess vegna virkar krúttleg og dálítið hallærisleg þjóðremba best. Framsóknarflokkurinn hefur fullkomnað þessa list.

Screen shot 2013-01-27 at 7.42.51 PM

Framsóknarflokkurinn hefur verið í alvarlegri tilvistarkreppu síðustu áratugi. Eitt sinn hafði Framsóknarflokkurinn raunverulega hugsjón, samvinnustefnuna. Fyrir samvinnumönnum var ekkert ógeðfelldara en fjárglæframenn og braskarar. En samvinnuhugsjónin hafði visnað löngu áður en Sambandið leið undir lok. Fyrir vikið gátu framsóknarbroddarnir tæmt sjóði Samvinnutrygginga og sölsað undir sig aðrar eignir samvinnufélaganna. Meðan þær gripdeildir áttu sér stað gerðist Framsókn flokkur fjárglæframanna.

Einu sinni var framsókn líka bændaflokkur. Svo varð hann stóriðju- og spillingarflokkur.

Og nú virðist Framsókn ætla að hasla sér völl sem flokkur þjóðlegra gilda. Framsóknarmenn hafa áður daðrað við þjóðrembu og framámenn flokksins hafa þurft að svara fyrir rasisma eða kynþáttahyggju. Þjóðlegu gildin hafa því alltaf verið til staðar, en það er forvitnilegt að greina birtingarmyndir þjóðrembings framsóknarmanna á síðustu árum. Við getum nefnilega greint tvo ólíka þræði í þjóðrembingi framsóknarflokksins. Annar þráðurinn er talsvert ógeðfelldari en hinn þótt báðir séu hættulegir.

Árið 1995 var staðhæft á forsíðu Alþýðublaðsins að Guðni Ágústsson, fyrrverandi formaður flokksins ætti aðild að félaginu Norrænt mannkyn – félagi sem barðist fyrir því að flóttamenn og innflytjendur væru reknir úr landi.

Screen shot 2013-03-01 at 10.36.19 PM

Tveir formenn félagsins vottuðu skriflega að Guðni Ágústsson væri meðlimur félagsins en sjálfur hafnaði hann hvers kyns tengslum við rasistafélagið. Mál Guðna minnir óneitanlega á vandræði Todd Palin, eiginmanns Söruh Palin, sem var um árabil meðlimur í félagsskap róttækra þjóðernissinna í Alaska en neitaði því svo staðfastlega eftir að hann áttaði sig á því að aðild að öfgasamtökum væri vond fyrir stjórnmálaframa fjölskyldunnar.

Enn situr eftir sú spurning hvort formenn Norræns mannkyns hafi logið upp á Guðna Ágústsson eða hvort hann hafi séð pólitískum hag sínum best borgið með því að segjast aldrei hafa tilheyrt samtökunum. Lesendur geta sjálfir velt því fyrir sér hvort er líklegra. Hvað sem þessum virðingarmanni innan Framsóknarflokksins þykir um útlendinga þá liggur afstaða hans til samkynhneigðar fyrir.

Vandræði Guðna eru gott dæmi um vanda stjórnmálamanna sem langar að spila á strengi þjóðernishyggju en vilja um leið birtast almenningi sem skynsamir og yfirvegaðir.

Líkt og fyrr segir hefur Framsóknarflokkurinn undir stjórn Sigmundar Davíðs reynt að feta þetta einstigi með því að klæða þjóðernishyggjuna í kjánalega einlægan búning. Pastelliti og ungmennafélagshallæri.

Sigmundur Davíð er Íslandsmeistari í krúttlega hallærislegri þjóðerembu, ólíkt t.d. Ólafi Ragnari sem er yfirleitt svo yfirgengilegur í sinni þjóðrembu að flest sómakært fólk roðnar af skömm. Auðvitað hefur Alþingisvaktin ekkert á móti sláturáti Sigmundar:

Screen shot 2013-01-27 at 8.52.11 PM

Svo eru dólgslæti Sigmundar Davíðs, Gunnars Braga og Ásmundar Einars fyrir utan Íslenska barinn líka fyrirgefanleg.

Íslenski barinn er þekktur fyrir að bjóða upp á íslenskar afurðir af ýmsu tagi og þar á meðal íslenskan mjöð. Það er spurning hvort Sigmundur Davíð sé enn á umræddum kúr og hvort ákefðin við að komast inn á Íslenskan barinn hafi tengst einlægum áhuga hans á íslenskri fæðu.

Framsóknarflokkur Sigmundar hefur verið iðinn við svona sprell á undanförnum árum. Á flokksráðsfundi Framsóknarflokksins árið 2011 var t.d. haldin glímusýning og fánahylling. Jafnframt var nýtt slagorð flokksins kynnt til sögunnar: Ísland í vonanna birtu!

Eiríkur Bergmann Einarsson, stjórnmálafræðingur, gerði þetta að umtalsefni í Fréttatímanum og sagði flokkinn vera farinn að daðra við þjóðernisstefnu og „fasísk minni“. Þá brást þingkonan Vigdís Hauksdóttir ókvæða við og krafðist þess að Eiríkur yrði rekinn frá Háskólanum á Bifröst. Þessi viðbrögð – sem jöðruðu við að vera fasísk – staðfestu að einhverju leyti gagnrýni Eiríks. Það er svo önnur saga að ofsafengin viðbrögð Vigdísar voru ákveðinn fyrirboði teboðstaktanna sem sjálfstæðismenn hafa gerst sekir um að undanförnu.

Stundum hefur Sigmundur farið gjörsamlega yfir strikið. Meira að segja flokkssystkinum hans í Kópavogi varð nóg um þegar hann lagði fram fyrirspurn á Alþingi um hlut fólks sem er af erlendu bergi brotið í skipulagðri glæpastarfsemi. Skömmu áður hafði hann fullyrt í útvarpsviðtali að fjárfestingar innlendra fjármagnseigenda væru æskilegri en útlendra, því að þeir síðarnefndu sæktust fyrst og fremst eftir gróða sem flytja mætti úr landi.

Fyrirspurnir eða orðræða sem tengir saman glæpi og útlendinga og sjúkdóma og útlendinga eru til þess fallnar að auka á fordóma í samfélaginu og draga úr umburðarlyndi og samhug

sagði í ályktun framsóknarmanna í Kópavogi.

Málflutningur á borð við þann sem Sigmundur býður upp á er vatn á myllu þeirra sem hatast við útlendinga. Og þá komum við að enn einu dæminu; framsóknarþingmanni sem virðist leggja sig sérstaklega fram við að halda hlífiskildi yfir embættismanni sem níðir skóinn af hælisleitendum.

Kristín Völundardóttir, forstjóri Útlendingastofnunar, vakti nýlega hneykslan með því að dylgja um skjólstæðinga sína, hælisleitendur, og gefa í skyn að þeir lifðu sníkjulifnaði á Íslandi. Hún vísaði ekki í neitt máli sínu til stuðnings og viðurkenndi reyndar í sama viðtali að Útlendingastofnun væri of undirmönnuð til að geta sinnt rannsóknarstörfum.

Ögmundur Jónasson, innanríkisráðherra, gagnrýndi Kristínu kurteislega í kvöldfréttum RÚV og boðaði hana á fund vegna ummælanna. Þá stökk Sigurður Ingi Jóhannesson, þingmaður Framsóknarflokksins, upp á nef sér og kvartaði undan þöggun og „árásum ráðherra“.

Skömmu síðar stakk Vigdís Hauksdóttir upp á því á Alþingi að hælisleitendur yrðu látnir bera ökklabönd með GPS sendum. Þessum hugmyndum er svarað hressilega hér og í grein eftir sama höfund er sýnt fram á vanþekkingu Vigdísar á Dyflinnarreglugerð Evrópusambandsins. Vigdís hafði varla sleppt orðinu fyrr en þessi skopmynd fór á flug í netheimum:

Vigdís Hauksdóttir vill ekki aðeins að hælisleitendur gangi með ökklabönd, heldur vill hún líka að íslenska ríkið dragi úr útgjöldum til þróunarmála. Eins og staðan er núna renna aðeins 0,22% af þjóðarframleiðslu okkar til þróunarverkefna og að þessu leyti stöndum við samanburðarlöndum okkar langt að baki. Þetta finnst Vigdísi hins vegar óþarfa fjáraustur sem nauðsynlegt sé að skera niður:

Fólki hættir stundum til að fókusera um of á Vigdísi Hauksdóttur. Skiljanlega. Alþingisvaktin telur hins vegar að með því séum við að horfa fram hjá dýpra og alvarlegra vandamáli. Það er nefnilega ekki svo langt síðan Sigmundur Davíð fór mikinn á flokksþingi Framsóknarflokksins í þvaðri um sjálfstæðishetjurnar, þorskastríðin og kraftinn sem blundaði með íslensku þjóðinni.

Undir krúttlegri og pastellitaðri sviðakjammaþjóðernishyggju Sigmundar leynist nefnilega þjóðrembingur sem er mun varasamari. Og krúttlegt sláturátið dregur athygli okkar frá því að forystumenn flokksins hafa kerfisbundið slegið á strengi útlendingahaturs. Slíkt er stórhættulegt.

Þjóðrembuorðræðan virðist ekki hafa truflað kjósendur flokksins hingað til. Raunar mælist Framsóknarflokkurinn með metfylgi um þessar mundir. Á óvissutímum er ekki óalgengt að þjóðrembuflokkar sæki í sig veðrið.

Stríðsyfirlýsing Sjálfstæðisflokksins gegn lágtekjufólki

Af landsfundarræðu Bjarna Benediktssonar að dæma vilja sjálfstæðismenn fella niður skuldir en jafnframt fletja skattkerfið. Þannig á að hlífa hinum tekjuhærri og velta skattbyrðinni yfir á þá sem minna mega sín.

Augljóslega hefur þetta í för með sér tekjutap fyrir ríkissjóð. Til að mæta því vilja sjálfstæðismenn skera hressilega niður í velferðarkerfinu.

Vissir hagsmunahópar munu eflaust hagnast á því að Sjálfstæðisflokkurinn komist til valda. En stefna flokksins gæti haft hörmulegar afleiðingar fyrir þá efnaminni.

Sjálfstæðisflokkurinn er ómannúðleg stjórnmálafylking. Að kjósa flokkinn jafngildir því að segja okkar minnstu bræðrum að éta skít.

Lesendur eru eindregið hvattir til að læka
Alþingisvaktina á Facebook og fylgjast með.

Furðukannanir í auglýsingaskyni?

Um daginn flutti útvarpsþátturinn Sprengisandur á Bylgjunni þær merkilegu fréttir að samkvæmt könnunum væri stjórnmálaflokkur fjárglæframannsins Guðmundar Franklíns Jónssonar, Hægri grænir, orðinn stærri en Vinstrihreyfingin grænt framboð. Þessi merkilega niðurstaða vakti  vitaskuld athygli, og var étin hrátt upp á Eyjunni sem skellti því upp í fyrirsögn að könnunin sýndi „Algert hrun stjórnarflokkanna“.

Stjórnarflokkarnir Samfylking og Vinstrihreyfingin – grænt framboð horfa fram á algjört hrun á fylgi sínu frá síðustu kosningum, sé eitthvað að marka skoðanakönnun sem Plúsinn gerði fyrir útvarpsþáttinn Sprengisand með Sigurjóni M. Egilssyni og birt var í morgun.

Í könnuninni mælast Vinstri grænir með ótrúlega lítið fylgi miðað við síðustu alþingiskosningar, eða 5,7% fylgi.  Samfylkingin, fengi hins vegar 14,4%. Það þýðir að ríkisstjórnarflokkarnir tveir mælast með fylgi upp á um 20% og er því ríkisstjórnin samkvæmt því kolfallin, svo vægt sé tekið til orða.

Til að leggja enn frekar áherslu á fylgisleysi stjórnarflokkanna benti Eyjan á að fylgi VG væri nú minna en Hægri grænna og það þó Hægri grænir væru ekki búnir að setja saman framboðslista:

Athygli vekur í könnuninni, að Hægri grænir undir forystu Guðmundar Franlíns Jónssonar mælast með 6% fylgi, eða meira en Vinstri grænir. Þó hafa Hægri grænir ekki birt neina framboðslista fyrir kosningarnar sem framundan eru og hafa raunar auglýst eftir frambjóðendum.

Maður hefði haldið að þetta eitt ætti að vekja spurningar um könnunina og hvort hún sé marktæk. Hægri grænir með 6% fylgi? Trúir því einhver?

Síðan þá hefur Sprengisandur á Bylgjunni hins vegar birt niðurstöður hverrar könnunarinnar á fætur annarri og flestar eru þær stórfurðulegar.

Allar eru þessar kannanir gerðar af sama fyrirtæki sem heitir „Plúsinn“ og sér um vefsíðuna plus.is. Ein könnun sýndi rífandi fylgi Framsóknarflokksins eftir Icesave: Flokkurinn kominn í 20% fylgi. Önnur sýndi að nýr formaður Samfylkingarinnar, Árni Páll Árnason, væri að sópa fylgi til flokksins. Eyjan flutti fréttir af öllum könnunum, enda sá vefmiðill, ásamt Evrópuvaktinni, sem hvað mest hefur hossað Árna Páli og heldur úti sérstökum „samtalsvettvangi“ fyrir hann.

Nú má vel vera að þetta sé allt satt og rétt og niðurstöðurnar innan skekkjumarka.

Það er hins vegar full ástæða til að gjalda varhug við þessum könnunum. Skoðum fyrst fyrirtækið sem framkvæmir þær. Samkvæmt heimasíðu fyrirtækisins er aðferðafræði þess nokkuð sérstök:

Þú skráir þig og færð sendan myndrænan tölvupóst þar sem þú ert beðin/n um álit á vörum, þjónustu, viðburðum og málefnum almennt. Þú svarar póstinum einfaldlega með því að smella á valmöguleikana sem í boði eru. Það tekur tæpar 10 sekúndur að taka þátt! Og mundu þú eykur vinningslíkur þínar með hverri þátttöku!

Plúsfélagar geta átt vona á ýmsum glaðningum fyrir það eitt að taka þátt. Í hverjum mánuði vinnur einn heppinn félagi ferðavinning, að auki gefum við heppnum félaga 20.000kr peningaverðlaun í hverri viku. Einnig gefum við fullt af smærri vinningum í hverjum mánuði t.d. DVD myndir, geislaplötur og bíómiða.

Auk þess að hafa áhrif færð þú sem Plúsfélagi, margvísleg tilboð sem ekki standa öðrum til boða. Það kostar ekkert að vera í Plúsnum og allir 12 ára og eldri geta skráð sig.

Þú hefur engu að tapa, aðeins ávinningur!

Say what? Könnunin er semsagt einhvers konar leikur þar sem þáttakendur, allt niður í 12 ára gömul börn, geta unnið einhverja vinninga? Því miður vitum við ekkert frekar um aðferðafræðina, hvernig spurningarnar eru orðaðar og hvert svarhlutfallið er í hverri könnun. Eyjan greinir reyndar frá því að „úrtakið“ í könnuninni sem vísað er til að ofan hafi verið 800 manns,  sem þýðir líklega að 800 manns hafi svarað. En við vitum ekkert hvert svarhlutfallið var, hversu margir voru óákveðnir (og hvort það hafi yfirleitt verið valkostur). Aðferðafræðin er því öll á huldu. Fyrir utan það sem við vitum að könnunin er fullkomlega óvísindaleg sjálfvalskönnun.

En það er fleira sem vekur athygli við þetta fyrirtæki. Ef við heimsækjum vefsíðu Plússins blasir þetta við:

Heimasíða plússins, sem er hluti 365 miðla, hefur ekki verið uppfærð síðan haustið 2009.

Heimasíða plússins, sem er hluti 365 miðla, hefur ekki verið uppfærð síðan haustið 2009.

Það fyrsta sem maður tekur eftir er að nýjustu „vinningshafar vikunnar“ eru frá því í október 2009. Sem bendir til þess að síðan hafi annað hvort ekki verið uppfærð síðan 2009 – eða að hætt hafi verið að verðlauna þátttakendur fyrir rúmlega fjórum árum síðan. Hvorugt eykur trúverðugleika fyrirtækisins.

Það vekur ekki síður athygli að Plúsinn tilheyrir fjölmiðlasamsteypu 365, samanber merkingar neðst á síðunni. Það gerir Bylgjan, sem vekur sérstaklega athygli á könnununum, auðvitað líka.

En hverskonar fyrirtæki er Plúsinn? Útvarpsþátturinn Sprengisandur, Eyjan og aðrir sem hafa haft eftir niðurstöður úr könnunum Plússins vísa til hans eins og hér sé á ferð skoðanakannanafyrirtæki á borð við Gallup eða MMR, nema að plúsinn sérhæfi sig í netkönnunum. En samkvæmt vefsíðu Plússins er hann hins vegar markaðssetningarfyrirtæki! Viðskiptavinir eru hvattir til að auglýsa á Plúsnum. Þar er hins vegar ekki að finna orð um áreiðanlegar skoðanakannanir.

Plúsinn selur viðskiptavinum sínum  auglýsingar - ekki kannanir.

Plúsinn selur viðskiptavinum sínum auglýsingar – ekki kannanir.

Allt vekur þetta spurningar, og þá sérstaklega um afskipti fjölmiðla eins og 365 miðla af stjórnmálum. Er það í lagi að auglýsingadeild fjölmiðlasamsteypu, sem er leynt og ljóst í eigu eins umsvifamesta fjárglæframanns síðasta áratugar, nánustu fjölskyldu og samreiðarsveina, skuli stunda pólítískan áróður með furðukönnunum?

Allir þeir sem vilja fylgjast með Alþingisvaktinni eru eindregið hvattir til að gerast áskrifendur með því að læka hana á Facebook (sjá hér að neðan). 

Norn og blautir draumar

Nýverið komu fram í dagsljósið gögn sem sýna að Margaret Thatcher, fyrrverandi forsætisráðherra Bretlands, hafði uppi áform um að einkavæða heilbrigðiskerfið þar í landi. Guardian greindi frá þessu og Smugan gerði málinu góð skil, en samkvæmt gögnunum stóð einnig til að almennt skólakerfi yrði skorið niður, að tengsl milli velferðarbóta og verðlags yrðu rofin og niðurgreiðslu til háskólamenntunar hætt. Árið var 1982 og blómaskeið róttækrar markaðshyggju að halda innreið sína á Vesturlöndum.

Upplýsingarnar um niðurskurðaráformin eru enn ein rósin í hnappagat járnfrúarinnar, en ekki er nema ár síðan breskir fjölmiðlar flettu hulunni af njósnum og leynilegum herferðum hennar gegn mannréttinda- og friðarsamtökum í Bretlandi. Málið minnir óneitanlega á njósnirnar sem breski leynilögreglumaðurinn Mark Kennedy stundaði á íslenskum virkjanaandstæðingum í samstarfi við lögregluyfirvöld í stjórnartíð Sjálfstæðisflokksins. Það kaldhæðnislega er að bæði Thatcher og sjálfstæðismenn töluðu borginmannlega um frelsi einstaklingsins meðan þessar árásir gegn friðhelgi einkalífsins stóðu yfir.

Í valdatíð Thatcher jókst misskipting og fátækt til muna. Járnfrúin skildi eftir sviðna jörð – og það gerðu einnig aðdáendur hennar hér á landi. Þótt efnahagsstefna sjálfstæðismanna hafi nú þegar framkallað eitt stærsta bankahrun veraldarsögunnar virðast þeir hvergi hafa hvikað frá stefnu sinni. Ef eitthvað er hafa þeir forherst í hatri sínu á samneyslu og styrkst í ofurtrú sinni á blind markaðsöfl.

Formaður flokksins hvetur til aukins niðurskurðar í velferðarkerfinu. Þingflokksformaður flokksins boðar róttæka niðurskurðarstefnu og þingmaður kallar hækkun barnabóta „gjafir án innistæðu“.

Léttúðin gagnvart lífskjörum þeirra sem minna mega sín er óhugnanleg. Hún vekur upp þá spurningu hvort Sjálfstæðisflokkurinn sé ef til vill hreinlega hættulegur á meðan efnahagsástandið er viðkvæmt á Íslandi.

Alþingisvaktin efast um að áætlunum í anda Thatcher verði hrint í framkvæmd á Íslandi í bráð, enda er ólíklegt að Sjálfstæðisflokkurinn muni sitja í næstu ríkisstjórn. Síðustu ár hafa þingmenn flokksins, undir handleiðslu fjárglæframannsins Bjarna Benediktssonar, talað og hegðað sér með þeim hætti að flokkurinn getur vart talist stjórntækur.

Það væri afar óábyrgt af öðrum flokkum á Alþingi að hleypa Sjálfstæðisflokknum í ríkisstjórn eftir kosningar. Miðað við stefnuna sem flokkurinn boðar má ætla að valdataka hans geti haft skelfileg áhrif á lífskjör fjölda fólks sem býr á Íslandi.

383848_10150591339457053_1955903091_n

Sjálfstæðismönnum er auðvitað velkomið að dreyma blauta drauma um niðurrif velferðarþjóðfélagsins svo lengi sem það bitnar ekki á okkur hinum. Skemmst er að minnast þess þegar þeir efndu til sérstakrar bíóferðar á Thatcher-myndina í Laugarásbíói. Hér að ofan sjáum við glæsilega mynd sem tekin var í hlénu af Bjarna Benediktssyni, Tryggva Þór Herbertssyni og Davíð Þorlákssyni, formanni SUS. Bjarni og Tryggvi eru hressir og kátir en Davíð Þorlákssyni er ekki skemmt. Ef til vill hefur hann rekið augun í ríkisstarfsmann.

Gamlir virðingarmenn flokksins létu einnig sjá sig og samkvæmt heimildum Alþingisvaktarinnar fannst grunsamlega mikill klósettpappír í bíósalnum að sýningu lokinni.

398771_10150591339397053_1980599077_n

10 heimskulegustu ummæli ársins 2012

Stundum pissa þingmenn þjóðarinnar í skóinn sinn og segja einhverja bölvaða dellu. Þá er það þjóðþrifaverk að halda ummælunum til haga.

10.

Screen shot 2013-01-02 at 12.03.54 AM

„Er farin að hallast að því að „ráðendur“ noti iðnaðarsaltið til að tala niður íslenska framleiðslu og landbúnaðarafurðir – sé að krataáróðurinn stefnir í þá átt !!!“

sagði Vigdís Hauksdóttir, þingkona Framsóknarflokksins, í ársbyrjun þegar umræðan um iðnaðarsaltið stóð sem hæst. Íslensk framleiðsla, íslenskar landbúnaðarafurðir og síðast en ekki síst íslenski kúrinn eiga sér öfluga málsvara á Alþingi.

9.

„Íslendingar sem fara niðrí miðbæ á sitt kaffihús sem þeir hafa kannski gert árum saman komast ekki að vegna þess að það er allt fullt af einhverjum ferðamönnum. Ferðamennskan sviptir okkur Íslendinga því umhverfi sem við búum í og höfum alist upp í. Við getum ekki lengur farið á Þingvöll og notið þess að standa á hakinu og horfa á Þingvelli. Við getum ekki lengur farið á Gullfoss og Geysi og notið þess að fara þangað því það eru þúsundir útlendinga þar sem að trufla mann í sínu eigin landi“

sagði hinn þjakaði Þór Saari, þingmaður Hreyfingarinnar, í útvarpsviðtali á Bylgjunni. Það er vandlifað í þessu landi.

8.

„Ég styð aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu – sem vel að merkja fer ekki með hernaði á hendur nokkru ríki og getur því ekki talist hernaðarbandalag. Öll lýðræðisriki hafa rétt til sjálfsvarnar“

sagði Árni Páll Árnason, vonarstjarna Samfylkingarinnar, á beinni línu hjá DV. Þannig sendi hann hugheila kveðju til þeirra 1100 óbreyttra borgara sem NATO-herirnir slátruðu í Líbíu í fyrra. Öll lýðræðisríki hafa nefnilega rétt til sjálfsvarnar.

7.

„Það er misskilningur þetta með álverin almennt að þau séu svo gríðarlega umhverfisspillandi starfsemi. Ál er grænn málmur. […] Ísland hefur ekki efni á afturhaldssamri orkunýtingarstefnu“

sagði Bjarni Benediktsson í viðtali hjá Harmageddon. Af samhenginu að dæma meinti hann að Ísland hefði ekki efni á því að halda aftur af virkjanaframkvæmdum í þágu umhverfisverndar. Ef Ísland, eitt ríkasta land í heimi, hefur ekki efni á því að sporna gegn loftslagsbreytingunum sem eru að rústa vistkerfi jarðarinnar, hvaða þjóð má þá við því? Alþingisvaktin hrakti málflutning Bjarna Benediktssonar í pistlinum Bjarni Ben vs. umhverfið.

6.

„Tjónið af þessarri ríkisstjórn er orðið meira en tjónið af hruninu, þau klikkuðu á því að taka á lánamálum heimilanna, fjárfesting fór í sögulegt lágmark, atvinnuleysi hefur aukist meira en það þurfti að gera – þegar allt kemur saman þá er það tjón meira en nam hruninu sjálfu“

sagði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, í ræðu á miðstjórnarfundi flokksins. Séu hagtölur og aðrar vísbendingar um stöðu þjóðarbúsins skoðaðar er ekkert sem bendir til þess að hann hafi rétt fyrir sér. DV tók saman ósannindi Sigmundar Davíðs en í sömu ræðu og hann lét þessi orð falla sagði hann að Framsóknarflokkurinn væri „viti rökhyggju og skynsemi.“

5.

Screen shot 2013-01-02 at 12.11.15 AM

„Nú er það svo að framning á slíku voðaverki er okkur flestum sem betur fer óskiljanleg, þ.e. verknaðurinn sjálfur og það sem þarf til þess að fremja hann. Hitt er svo annað mál að það að slíkt skuli gerast í því ástandi sem hefur verið viðvarandi hér á landi undanfarin tæp fjögur er hreint ekki undarlegt eða óskiljanlegt“

skrifaði Þór Saari á bloggsíðu sína í kjölfar hnífsstunguárásarinnar á starfsmann lögmannastofu í Lágmúla. Hann uppskar reiði Sveins Andra Sveinssonar og smáfuglanna á AMX – sem fannst raunar verst að hann skyldi „fela sig á bak við konu“.

4.

„Hvernig ætla menn að botna þessa vísu? Menn eru eitthvað spenntir fyrir því að afnema Þjóðkirkjuna og aðskilja ríki og kirkju, en hvar á að botna þessa vísu? Hvað með krossinn í fánanum? Hvað með frídagana? Ætliði að halda upp á jólin? [innskot Alþingisvaktarinnar: Þegar hér var komið sögu bentu þáttastjórnendur á að jólin eru heiðinn siður og voru haldin hér á landi löngu áður en að Íslendingar tóku kristni] Áður en að kristnin kom? Hvar ætliði að botna þessa umræðu?“

Þessi orð lét Bjarni Benediktsson falla í hinu kostulega viðtali við Frosta og Mána í Harmageddon. Orðin urðu tilefni pistils á Alþingisvaktinni sem fékk heitið Bjarni Ben gerir sig að fífli.

3.

ImageHandler

„Ég vona að þið hafið báðir fermst strákar, er það ekki?“

Vigdís Hauksdóttir á heiðurinn af þessum gullkornum sem einnig féllu í Harmageddon. Þegar þáttastjórnendur minntust á kvenfyrirlitningu og hommahatur í Biblíunni svaraði Vigdís þeim eins og sönn teboðsdrottning: „Mér finnst þú frekar vera að lesa upp úr trúarriti múslima.“ Alþingisvaktin tók Vigdísi rækilega fyrir í pistlinum Brandarinn er búinn, Vigdís.

2.

558870_10151373550018804_912504386_n

„Það er að sjálfsögðu skýlaus krafa að til þess að Ísrael gæti öryggis borgara sinna verði líka gætt meðalhófs“

sagði Bjarni Benediktsson í sérstökum umræðum um deilurnar fyrir botni Miðjarðarhafs á meðan sprengjum rigndi yfir Gaza-svæðið. Þá hafði innanríkisráðherra Ísraels lýst því yfir að tilgangur árásanna væri sá að sprengja Gaza-svæðið aftur til miðalda. Netverjar voru fljótir að taka við sér og skömmu eftir að Bjarni hélt ræðu sína var myndin hér að ofan komin í dreifingu á Facebook. Alþingisvaktin velti þá fyrir sér hvort Bjarni Benediktsson vildi ef til vill frekar sprengja Gaza-svæðið aftur til endurreisnarinnar heldur en miðalda.

1. 

Screen shot 2013-01-02 at 12.01.53 AM

„Finnst engum athugavert að safna börnum og unglingum kerfisbundið saman á afskekktri eyju í þeim tilgangi að innræta þeim tiltekna flokkspólitíska stjórnmálaskoðun???“

skrifaði Tryggvi Þór Herbertsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, á Facebook-síðu sína sama dag og Anders Behring Breivik var dæmdur í lífstíðarfangelsi fyrir fjöldamorðin í Noregi. Illugi Jökulsson hitti naglann á höfuðið á bloggsíðu sinni: „Að nefna þetta í gær var eins og ef dauðadrukkinn ökufantur hefði keyrt niður barnið mitt á götuhorni og svo hefði Tryggvi Þór mætt í sjálfa erfidrykkjuna og klöngrast þar upp á stól síðla kvölds og heimtað að fá að halda ræðu: „Bölvuð fyllibyttan. En finnst engum athugavert að krakkanum skuli hafa verið hleypt út í stórhættulega umferðina?““ Í ofanálag var rifjað upp að sjálfur hafði Tryggvi sett stjórnmálaskóla Sjálfstæðisflokksins fyrir ungt fólk fyrr á árinu.

Uppfært 2. janúar, 04:37: Alþingisvaktinni barst ábending þess efnis að einhver ósmekklegustu ummæli þingmanns árið 2012 hefðu gleymst. Þessi frétt birtist í DV í júní:

Screen shot 2013-01-02 at 2.17.14 AM

Allir þeir sem vilja fylgjast með Alþingisvaktinni eru eindregið hvattir til að læka hana á Facebook (sjá neðst á síðunni). Þannig má stækka lesendahópinn.

ÁRSUPPGJÖR

Hráefni ársins: Iðnaðarsalt

Norðmaður ársins: Hannes Bjarnason

Dólgslæti ársins: Sneypuför framsóknarmanna á Íslenska barinn

Yfirmaður ársins: Stefán Einar Stefánsson, formaður VR

Læknir ársins: Jens Kjartansson

Elliheimili ársins: Eir

Sakamaður ársins: Geir H. Haarde

Vinir ársins: Björn Valur Gíslason og hundurinn hans

46242_396096230469713_940624679_n


202182_4218867322056_1579138963_o

Sprengjumaður ársins: Valentínus Vagnsson

Lýðskrumari ársins: Ólafur Ragnar Grímsson

Sundrung ársins: Stjórnmálaflokkurinn Samstaða

Síonisti ársins: Bjarni Benediktsson

Fjárfestingartilraun ársins: Tilraun framsóknarmanna til að eignast Fréttatímann

Ferðalag ársins: För Bjarna Benediktssonar og Ragnheiðar Elínar Árnadóttur á landsþing Repúblikana í Tampa

Viðtal ársins: Viðtalið við Bjarna sem aldrei var tekið

Stefnuyfirlýsing ársins: Ályktun Bjartrar framtíðar

Jólagjöf ársins: Kynlíf með Þórhalli Heimissyni presti

Samsæriskenning ársins: Þráhyggja framsóknarmanna sem trúa því að þingmenn hafi handstýrt búsáhaldabyltingunni

Kratasamsæri ársins: Umræðan um iðnaðarsaltið

Fair and balanced ársins: Gísli Freyr Valdórsson, blaðamaður á Viðskiptablaðinu

Fasisti ársins: Björn Bjarnason

Þingmál ársins: Kuklniðurgreiðslutillaga Ólínu og Álfheiðar

374468_456595367738192_182091141_n

Vandræðalegt ársins: Björt Ólafsdóttir, vonarstjarna Bjartrar framtíðar, í viðtali á Útvarpi Sögu

Dauðyfli ársins:  Brynjar Níelsson

Helför ársins: Aðför ríkisstjórnarinnar að sjávarútveginum

Fyrirgefning ársins: Þegar ritstjóri DV ákvað að fyrirgefa útrásarvíkingunum

Dómgreindarbrestur ársins: Þegar Guðbjartur Hannesson lofaði Birni Zoega launahækkun

Pólitísk ráðning ársins: Þegar Össur Skarphéðinsson réði Guðmund Rúnar Árnason til Malaví

Hummer ársins: Hummerinn hans Jóns Ásgeirs

Leiðari ársins: Íslenska teboðið

Setning ársins: George W. Bush er ekki ritstjóri Washington Post

Mainstream miðjumaður ársins: Hannes Hólmsteinn Gissurarson

Hreppaflutningar ársins: Þegar Sigmundur Davíð bauð sig fram í Norðausturkjördæmi

Make over ársins: Árni Páll Árnason

Sneypuför ársins: Framboð Björns Vals í Reykjavík

Rauðvínsunnandi ársins: Höskuldur Þórhallsson

Rasshausar ársins: Smáfuglarnir á amx.is

Stjörnupar ársins: Einar Steingrímsson og Eva Hauksdóttir

Versti bloggari ársins: Röggi á Eyjunni

Pulsupartý ársins: Málsverðurinn eftir eftir aðalmeðferð um frávísunarkröfu í Al Thani málinu

Kommentari ársins: Ragnar Halldórsson

Formaður ársins: Gísli Freyr Valdórsson, formaður rekstrarráðs Fíladelfíusöfnuðarins

Feðraveldi ársins: Guðbergur Bergsson

Fyrirmynd ársins: Gillz

Samtök ársins: Samtök fasteignaeigenda og kaupmanna við Laugarveg

Skattgreiðandi ársins: Skafti Harðarson

Brúða ársins: Bjarni Benediktsson

Brúðuleikari ársins: Bláa höndin

Stöðuorka ársins: Hanna Birna Kristjánsdóttir

Hófsemdarmaður ársins: Jakob Bjarnar Grétarsson

Námskeið ársins: Smásagnanámskeið Ágústs Borgþórs Grétarssonar

Stjórnmálaferill ársins: Siggi stormur í Samstöðu

Útgerðarmaður ársins: Gunnþór Ingvason, forstjóri Síldarvinnslunnar í Neskaupsstað

Börn ársins: Börnin hans Gunnþórs Ingvasonar

Kór ársins: Kór heimavarnarliðsins og tunnanna

 

Viðskiptamenn ársins: Lárus Welding, Guðmundur Hjaltason, Ragnar Z. Guðjónsson og Jón Þorsteinn Jónsson

Sæluástand ársins: Þegar Össur Skarphéðinsson borðaði hrossabjúgu

Dýr ársins: Blindrahundurinn hans Helga Hjörvars

Fjöldahreyfing ársins: LÍÚ

Hetja ársins: Hildur Lilliendahl

Glæsimenni ársins: Glæsimenni Guðbergs

Lattelepjari ársins: Egill Helgason

Smelludólgsháttur ársins: Andsetna barnið í Mogganum

Doktor ársins: Kristinn Ólason

Mannréttindaverðlaun ársins: Þegar Samtökin 78 heiðruðu Morgunblaðið

Rasistasnepill ársins: Morgunblaðið 

Leyniskjöl ársins: Leyniskjölin úr kynjafræðinni

Best klæddi fjölmiðlamaður ársins: Þorbjörn Þórðarson

Latínulegend ársins: Þorbjörn Þórðarson þegar hann fjallaði um landsdómsmálið

Verkalýðshetja ársins: Guðmundur Kristjánsson í Brimi

Lopapeysa ársins: Vestfirska lopapeysan hennar Katrínar Jakobsdóttur

Gjörningur ársins: Furðuleg ádeila Björns Vals og Lúðvíks Geirssonar á málþóf stjórnarandstöðunnar

Heilög vandlæting ársins: Viðbrögð Illuga Gunnarssonar við gjörninginum

Kögunarbarn ársins: Sigmundur Davíð Gunnlaugsson

Úrsögn ársins: Þegar Gylfi Arnbjörnsson sagði sig úr Samfylkingunni

Einelti ársins: Þegar RÚV tók ekki viðtal við Gunnar Braga og honum sárnaði

Mannréttindasamtök ársins: Málsvörn, samtök til stuðnings Geir H. Haarde

Starfskraftur ársins: Baldur Guðlaugsson, starfsmaður hjá lögmannastofunni Lex

Fjárlagatillögur ársins: Tillögur Sambands ungra sjálfstæðismanna

Feis ársins: Ádeila menntskælinga á tillögur SUS

 

Eldræða ársins: Viðbrögð Geirs H. Haarde við niðurstöðu landsdóms

Meðalhóf ársins: Bjarni Ben

Lítilmenni ársins: Þór Saari

Árás ársins: Árásin á tölvukerfi Þjóðráðs

Rannsóknarsetur ársins: Rannsóknarsetur um nýsköpun og hagvöxt

Þáttastjórnandi ársins: Geir H. Haarde

Fyrirlestur ársins: Geir Jón í Valhöll

Prestur ársins: Kristján Valur Ingólfsson

Fyrirlesari ársins: Rasmussen nokkur sem hélt fyrirlestur um Ayn Rand

Lögreglumaður ársins: Jón Lárusson

Flokkaflakkari ársins: Róbert Marshall

Sjóræningi ársins: Birgitta Jónsdóttir

Móðursýki ársins: Viðbrögð Kauphallarinnar við ummælum Sigríðar Ingibjargar um stöðu Íbúðalánasjóðs

Öfgamenn ársins: Öfgamenn Bjarna í umhverfismálum

Kosningastjóri ársins: Ólafía B. Rafnsdóttir, kosningastjóri Ólafs Ragnars og Árna Páls

Ímyndarklúðrari ársins: Friðjón R. Friðjónsson, kosningastjóri Þóru Arnórsdóttur

Kaffispjall ársins: Kaffispjallið með Árna Páli

 

Glott ársins: Smeðjuglottið í þessu myndbandi

Tölvupóstur ársins: Tölvupósturinn frá aðstoðarmanni Sigmundar Davíðs

Fjáröflun ársins: Pennasala Samstöðu

Fáfræði ársins: Þegar Árni Páll fullyrti á Beinni línu hjá DV að NATO hefði aldrei ráðist inn í land

Auglýsing ársins: Hatursáróður rússnesku rétttrúnaðarkirkjunnar

Stjórnmálafræðingur ársins: Gunnar Helgi Kristinsson

Þöggun ársins: Þöggunin um aðförina að Baldri Guðlaugssyni

Endurmenntun ársins: 365 til London

Hæfust ársins: Edda Sif Pálsdóttir

Forsíða ársins: Bjarni Benediktsson framan á Nýju lífi

241771_534210563260726_661212840_o

Vitni ársins: Bjarni Benediktsson

Gullæði ársins: Olíuleitin á Drekasvæðinu

Nafn á stjórnmálaflokki ársins: Björt framtíð

Gegnheill sómamaður ársins: Baldur Guðlaugsson

Skelfilegasta framtíðarsýn ársins: Lýsingin í síðustu efnisgrein þessa pistils

Deila ársins: Guðni Ágústsson vs. Davíð Þór Jónsson

Troll ársins: Vigdís Hauksdóttir

Fúsk ársins: Stjórnarskrárbreytingarnar

Söngvari ársins: Árni Páll Árnason

15322_369946397229_408645_n

Skoðanakönnun ársins: Kosningin um stjórnarskrárbreytingarnar

Túlkunarmeistarar ársins: Birgir Ármannsson og Illugi Gunnarsson

Sarah Palin ársins: Vigdís Hauksdóttir

Krossfari ársins: Eva Hauksdóttir sem háði heilagt stríð gegn kennivaldi kvenhyggjunnar

Fórnarlömb ársins: Fjölskyldan sem slengt var framan á áróðursplakat LÍÚ án þess að veita leyfi fyrir því

Fyrirvinna ársins: Sjómenn þessa lands

Öryggisventill ársins: Ólafur Ragnar Grímsson

Pistill ársins: Ósjálfbjarga og elska það eftir Tinnu Rós Steinsdóttur

Slagorð ársins: Ísland í vonanna birtu, slagorð Framsóknarflokksins

Ósannindi ársins: Ósannindi Sigmundar Davíðs

550105_448955151835547_688932674_n

Viti ársins: Framsóknarflokkurinn

Keflavíkurskinka ársins: Ragnheiður Elín Árnadóttir

Rasshausasegull ársins: Hildur Lilliendahl

Fjölmiðill ársins: Frelsisvaktin, svar frjálshyggjumanna við Alþingisvaktinni

Sókn ársins: Sóknin gegn sósíalisma

Sósíalisti ársins: Barack Obama

Gæluverkefni ársins: Þróunaraðstoð

Stétt ársins: Græðarar

Bakari ársins: Sigmundur Davíð

Óeirðir ársins: Lindex, Smáralind

Skrautdúkka ársins: Þóra Arnórsdóttir

Loftslagsvísindamaður ársins: Bjarni Benediktsson

Vinnuveitandi ársins: Ástþór Magnússon Wium

Stönt ársins: Þegar Ögmundur Jónasson greindi frá því í Morgunblaðinu að hann ætlaði að styðja tillögu Bjarna Ben um að draga ákæruna á hendur Geir H. Haarde til baka

Arðræningi ársins: Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja

Umhverfisverndarsinni ársins: Guðmundur Franklín Jónsson

Alþingisvaktin þakkar samfylgdina
og óskar lesendum gleðilegs nýárs.

Rotþró Samfylkingarinnar

Björt framtíð er rotþró fyrir mislukkaða framapotara sem komast ekki til áhrifa innan Samfylkingarinnar.

Flokkurinn var stofnaður í kringum flokkaflakkara sem gengur með ráðherrastól í maganum.

Stefnumál flokksins eru nákvæmlega þau sömu og stefnumál Samfylkingarinnar, nema aðeins innihaldsrýrri og skrumkenndari.

Forsprakkar flokksins handvelja fólk á framboðslista og leitun er að stjórnmálaflokki sem heitir jafn asnalegu nafni.

Nú hefur honum borist Marshall-aðstoð. Til hamingju, Björt framtíð.

Burtsókn í útrýmingarhættu

Það er í raun merkilegt að Framsóknarflokkurinn skuli ennþá vera til, að minnsta kosti ef litið er til viðvarandi fólksflótta úr flokknum á síðustu árum. Kjósendum fækkar jafnt og þétt.

Í fjölmennustu sveitarfélögum landsins hafa kjósendur áttað sig á því að „framsóknarstefnan“ grundvallast á lýðskrumi og tækifærismennsku en ekki „skynsemi og rökhyggju“, eins og formaður flokksins hefur staglast á að undanförnu.

Sést það glögglega þegar framsóknarmanna er leitað í sveitarstjórnum fjölmennustu sveitarfélaganna. Þá þarf svo sannarlega að píra augun.

  • 0 menn – Reykjavík
  • 1 maður – Kópavogur
  • 0 menn – Hafnarfjörður
  • 1 maður – Akureyri
  • 1 maður – Reykjanesbær
  • 0 menn – Garðabær
  • 0 menn – Mosfellsbær
  • 1 maður – Árborg
  • 0 menn – Seltjarnarnes
  • 0 menn – Vestmannaeyjar
  • Íbúar ofangreindra sveitarfélaga: Um 240 þúsund.
  • Bæjarfulltrúar Framsóknarflokksins samtals: Fjórir.

Margir framsóknarmenn hafa áttað sig á þessu. Þeirra á meðal er formaður flokksins, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, sem nýlega flúði úr Reykjavíkurkjördæmi norður í eitt síðasta vígi flokksins, Norðausturkjördæmi.

Formaðurinn berst til síðasta blóðdropa. Aðrir forystumenn átta sig á því í hrönnum að flokknum er ekki viðbjargandi. Fyrir skömmu tilkynnti hinn ungi og glæsilegi varaformaður, Birkir Jón Jónsson, að hann hygðist hætta afskiptum af stjórnmálum í bili. Stuttu síðar lýsti Siv Friðleifsdóttir, fyrrverandi ráðherra, því yfir að þingferill hennar væri á enda.

Ekki eru allir flokksmenn á eitt sáttir við þá spillingu og sérhagsmunagæslu sem einkennt hefur flokkinn í áranna rás. Einnig fer fyrir brjóstið á sumum að flokkurinn hafi nú haslað sér völl sem helsti þjóðernisflokkur landsins. 

Jafnvel hörðustu framsóknarmönnum er nóg boðið.

  • Einar Skúlason, fyrrum varaþingmaður, sagði sig úr Framsóknarflokknum vegna „þjóðernisíhaldssemi“ sem honum þótti ráða ríkjum. Einar sá er mörgum kunnur eftir að hafa leitt lista framsóknarmanna í Reykjavík vopnaður slagorðinu góða „Þú meinar Einar“.
  • Þráinn Bertelsson, núverandi þingmaður Vinstri grænna, sagði sig úr Framsóknarflokknum með þeim orðum að hann „aðhylltist ekki pólitík reykfylltra bakherbergja“. Vera má að reykfyllt bakherbergi hafi einnig farið illa í Siv Friðleifsdóttur sem reyndi ásamt öðrum framsóknarmönnum að banna reykingar á sínum tíma.
  • Pétur Gunnarsson, trúnaðarmaður Framsóknarflokksins til margra ára, flúði flokkinn eftirminnilegan hátt. Kunni hann illa við „hrægammakapítalisma“ flokkssystkina sinna.
  • Gísli Tryggvason, talsmaður neytenda, var gallharður framsóknarmaður þar til fyrir skömmu.
  • Bjarni Harðarson, tæknitröllið mikla og fyrrum þingmaður flokksins hröklaðist burt og er afskaplega feginn.
  • Guðmundur Steingrímsson, sonur fyrrverandi forsætisráðherra Framsóknarflokksins, sá sig knúinn til þess að halda á brott og stofna flokk með hallærislegasta nafn í heimi.

Svo mætti lengi áfram telja. Framsóknarmenn geta þó huggað sig við það að Jónína Benediktsdóttir og Frosti Sigurjónsson hafa slegist í hópinn. En á heildina litið virðist flokkurinn vera í útrýmingarhættu.

Framsóknarmenn sækja ekki fram lengur. Flestir sækja bara burt.

Þröngt hjá þingforseta

Fáir hafa orðið jafn grimmilega fyrir barðinu á þrengingum efnahagshrunsins og forseti Alþingis, Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir. Að henni er þrengt úr öllum áttum. Á fundarpöllum Alþingis hefur hún vart undan við að siða Alþingismenn til sem ýmist gagnrýna ekki störf hennar nægilega eða misþyrma móðurmáli hennar.


Ásta Ragnheiður er friðarhöfðingi Alþingis. Hún tekur skýra afstöðu gegn nímenningum sem dirfast að raska friði þess og frelsi. Ásta er svo hörð í horn að taka að hún lætur sér ekki nægja að refsa friðarspillunum heldur vill hún bola burt öllu því sem minnir á aðförina að fílabeinsturninum. Ó hvað þingið er heilagt. Heilagleikinn hreinlega drýpur af því. Og einkaframtakið skal ekki dirfast að varpa skugga sínum yfir þinghúsið. Það krefst móðurlegrar verndar Ástu Ragnheiðar Jóhannesdóttur. Og þegar hún hættir sér út úr bænum, hvað gerist þá? Jú, það er þuklað á henni. Hvergi þó meira en í Leifsstöð.

Þvílík óheppni fyrir aumingja Ástu að það eina í verksviði hennar sem forseti skuli einmitt vera reglulegar heimsóknir í þessar Guantanamobúðir Íslands.

Hinar hræðilegu þrengingar Ástu Ragnheiðar bitna ekki aðeins á henni sjálfri, heldur ekki síður á þeim sem standa henni næst. Þessu hefur Alþingisbjallan fengið að kynnast á hrottalegan hátt:

Ásta hefur taktinn svo sannarlega í sér. Ljóst er að hún hefur engu gleymt frá gömlu góðu Glaumbarsdögunum.

Takk!

Þingmönnum er úthúðað á hverjum einasta degi. Í kommentakerfum vefmiðlanna, í fjölskylduboðum, á Útvarpi Sögu og þótt víðar væri leitað. Orðræðan einkennist af skammaryrðum: Samspillingin, SjálfstæðisFLokkurinn, Fjórflokkurinn.

Það er sami rassinn undir þeim öllum, burt með pakkið!“ kalla hinir sjálfskipuðu siðgæðispostular sem telja jafnvel að þeir séu með einhverjum hætti hafnir yfir stjórnmálaumræðuna. „Þetta er sandkassaleikur sem kemur mér ekki við,“ segja þeir og þannig firra þeir sig þeirri ábyrgð sem fulltrúalýðræðið leggur á hvern einasta samfélagsþegn.

Alþingisvaktinni er meinilla við lýðskrum og lygar. Henni finnst ömurlegt þegar stjórnmálamenn brjóta lög, segja tóma tjöru eða ganga erinda sérhagsmunahópa. Samt sem áður mun Alþingisvaktin aldrei taka undir þá orðræðu sem lýst var hér að ofan.

Á Alþingi starfa 63 þingmenn og enginn þeirra er eins. Sumir þeirra eru með hernaðarblæti. Aðrir hafa þegið himinháa styrki frá útrásarvíkingum. Enn aðrir eiga ömurlega viðskiptafortíð að baki og víla ekki fyrir sér að skrifa undir fölsuð plögg.

En flestir þingmannanna eru eflaust að gera sitt allra besta. Þeir liggja yfir þingskjölum, standa í stöðugum málamiðlunum og sitja á löngum og eflaust drepleiðinlegum nefndafundum. Og þegar heim er komið blasa við formælingar og fúkyrði í netheimum og á síðum dagblaðanna.

Alþingisvaktin mun ekki sýna svörtum sauðum á þinginu neina miskunn. Hér verður fjallað vafningalaust og harkalega um viðskiptafortíð, hræsni, sérhagsmunapot og bjánaskap. Enda er gagnrýni og aðhald forsenda þess að lýðræðið sé lýðnum til hagsbóta.

Gleymum því samt ekki að þingmenn eru líka menn. Verum þakklát þeim sem nenna að standa í þessu stappi af góðum hug.

Þingmenn fá sjaldan hvatningu og hrós. En í dag vill Alþingisvaktin beina til (flestra) þeirra þessum orðum:

Takk fyrir og gangi ykkur vel!

%d bloggurum líkar þetta: