Bless Ásbjörn :’-(
by Althingisvaktin
Nú líður senn að kveðjustund. Ásbjörn Óttarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, hefur ákveðið að gefa ekki kost á sér til frekari starfa á Alþingi. Það verður mikill missir af Ásbirni og í tilefni þessara frétta er gráupplagt að glugga aðeins í afrekaskrá hans.
Lögbrot (óvart)
Árið 2008 greiddi hann sér arð upp á 65 milljónir króna út úr útgerðarfélaginu Nesver sem er í eigu Ásbjörns og fjölskyldu hans. Eiginfjárstaða fyrirtækisins var neikvæð á þessum tíma og því arðgreiðslan ólögleg. Eftir að málið komst í fjölmiðla sagðist Ásbjörn hafa greitt sér arðinn fyrir mistök og endurgreitt peningana. Bjarna Ben var slétt sama.
Hagsmunagæsla
Ásbjörn er enn framkvæmdastjóri og eigandi útgerðarfyrirtækisins. Hann hefur tekið virkan þátt í umræðum um kvótakerfið á þingi og barist hatrammlega gegn öllum breytingum á því þótt augljóst sé að hann hefur fjárhagslegra hagsmuna að gæta.
Einkavæðing á vatni
Ásbjörn hefur verið forseti bæjarstjórnar Snæfellsnesbæjar um árabil. Árið 2009 samþykkti hann samning um sölu vatnsréttinda á Snæfellsnesi til 95 ára. Vatnsréttindin fékk fyrirtæki sem teygir anga sína til Hollendingsins Otto Spork, en þegar samningurinn var gerður voru viðskipti hans til rannsóknar hjá kanadíska fjármálaeftirlitinu vegna gruns um stórfellt fjármálamisferli. Ásbjörn hefur verið þögull sem gröfin um innihald samningsins og aðspurður sagðist hann ekki muna hvað í honum stæði.
Fokkjú listamenn – áfram Nesver!
Þótt átakanlegt sé að kveðja Ásbjörn Óttarsson verður að líta á björtu hliðarnar. Ásbjörn ætlar nú að einbeita sér óskiptur að Nesveri! Hann segir skilið við ríkisspenann og fer að „vinna eðlilega vinnu eins og eðlilegt fólk.“ Bless Ásbjörn. Megi Nesver vaxa og dafna sem aldrei fyrr. Fokk jú listamenn, áfram verðmætasköpun!
Allir þeir sem vilja fylgjast með Alþingisvaktinni eru eindregið hvattir til að læka hana á Facebook (sjá hér til hægri). Þannig má stækka lesendahópinn.