Norn og blautir draumar

by Althingisvaktin

Nýverið komu fram í dagsljósið gögn sem sýna að Margaret Thatcher, fyrrverandi forsætisráðherra Bretlands, hafði uppi áform um að einkavæða heilbrigðiskerfið þar í landi. Guardian greindi frá þessu og Smugan gerði málinu góð skil, en samkvæmt gögnunum stóð einnig til að almennt skólakerfi yrði skorið niður, að tengsl milli velferðarbóta og verðlags yrðu rofin og niðurgreiðslu til háskólamenntunar hætt. Árið var 1982 og blómaskeið róttækrar markaðshyggju að halda innreið sína á Vesturlöndum.

Upplýsingarnar um niðurskurðaráformin eru enn ein rósin í hnappagat járnfrúarinnar, en ekki er nema ár síðan breskir fjölmiðlar flettu hulunni af njósnum og leynilegum herferðum hennar gegn mannréttinda- og friðarsamtökum í Bretlandi. Málið minnir óneitanlega á njósnirnar sem breski leynilögreglumaðurinn Mark Kennedy stundaði á íslenskum virkjanaandstæðingum í samstarfi við lögregluyfirvöld í stjórnartíð Sjálfstæðisflokksins. Það kaldhæðnislega er að bæði Thatcher og sjálfstæðismenn töluðu borginmannlega um frelsi einstaklingsins meðan þessar árásir gegn friðhelgi einkalífsins stóðu yfir.

Í valdatíð Thatcher jókst misskipting og fátækt til muna. Járnfrúin skildi eftir sviðna jörð – og það gerðu einnig aðdáendur hennar hér á landi. Þótt efnahagsstefna sjálfstæðismanna hafi nú þegar framkallað eitt stærsta bankahrun veraldarsögunnar virðast þeir hvergi hafa hvikað frá stefnu sinni. Ef eitthvað er hafa þeir forherst í hatri sínu á samneyslu og styrkst í ofurtrú sinni á blind markaðsöfl.

Formaður flokksins hvetur til aukins niðurskurðar í velferðarkerfinu. Þingflokksformaður flokksins boðar róttæka niðurskurðarstefnu og þingmaður kallar hækkun barnabóta „gjafir án innistæðu“.

Léttúðin gagnvart lífskjörum þeirra sem minna mega sín er óhugnanleg. Hún vekur upp þá spurningu hvort Sjálfstæðisflokkurinn sé ef til vill hreinlega hættulegur á meðan efnahagsástandið er viðkvæmt á Íslandi.

Alþingisvaktin efast um að áætlunum í anda Thatcher verði hrint í framkvæmd á Íslandi í bráð, enda er ólíklegt að Sjálfstæðisflokkurinn muni sitja í næstu ríkisstjórn. Síðustu ár hafa þingmenn flokksins, undir handleiðslu fjárglæframannsins Bjarna Benediktssonar, talað og hegðað sér með þeim hætti að flokkurinn getur vart talist stjórntækur.

Það væri afar óábyrgt af öðrum flokkum á Alþingi að hleypa Sjálfstæðisflokknum í ríkisstjórn eftir kosningar. Miðað við stefnuna sem flokkurinn boðar má ætla að valdataka hans geti haft skelfileg áhrif á lífskjör fjölda fólks sem býr á Íslandi.

383848_10150591339457053_1955903091_n

Sjálfstæðismönnum er auðvitað velkomið að dreyma blauta drauma um niðurrif velferðarþjóðfélagsins svo lengi sem það bitnar ekki á okkur hinum. Skemmst er að minnast þess þegar þeir efndu til sérstakrar bíóferðar á Thatcher-myndina í Laugarásbíói. Hér að ofan sjáum við glæsilega mynd sem tekin var í hlénu af Bjarna Benediktssyni, Tryggva Þór Herbertssyni og Davíð Þorlákssyni, formanni SUS. Bjarni og Tryggvi eru hressir og kátir en Davíð Þorlákssyni er ekki skemmt. Ef til vill hefur hann rekið augun í ríkisstarfsmann.

Gamlir virðingarmenn flokksins létu einnig sjá sig og samkvæmt heimildum Alþingisvaktarinnar fannst grunsamlega mikill klósettpappír í bíósalnum að sýningu lokinni.

398771_10150591339397053_1980599077_n