Burtsókn í útrýmingarhættu

by Althingisvaktin

Það er í raun merkilegt að Framsóknarflokkurinn skuli ennþá vera til, að minnsta kosti ef litið er til viðvarandi fólksflótta úr flokknum á síðustu árum. Kjósendum fækkar jafnt og þétt.

Í fjölmennustu sveitarfélögum landsins hafa kjósendur áttað sig á því að „framsóknarstefnan“ grundvallast á lýðskrumi og tækifærismennsku en ekki „skynsemi og rökhyggju“, eins og formaður flokksins hefur staglast á að undanförnu.

Sést það glögglega þegar framsóknarmanna er leitað í sveitarstjórnum fjölmennustu sveitarfélaganna. Þá þarf svo sannarlega að píra augun.

 • 0 menn – Reykjavík
 • 1 maður – Kópavogur
 • 0 menn – Hafnarfjörður
 • 1 maður – Akureyri
 • 1 maður – Reykjanesbær
 • 0 menn – Garðabær
 • 0 menn – Mosfellsbær
 • 1 maður – Árborg
 • 0 menn – Seltjarnarnes
 • 0 menn – Vestmannaeyjar
 • Íbúar ofangreindra sveitarfélaga: Um 240 þúsund.
 • Bæjarfulltrúar Framsóknarflokksins samtals: Fjórir.

Margir framsóknarmenn hafa áttað sig á þessu. Þeirra á meðal er formaður flokksins, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, sem nýlega flúði úr Reykjavíkurkjördæmi norður í eitt síðasta vígi flokksins, Norðausturkjördæmi.

Formaðurinn berst til síðasta blóðdropa. Aðrir forystumenn átta sig á því í hrönnum að flokknum er ekki viðbjargandi. Fyrir skömmu tilkynnti hinn ungi og glæsilegi varaformaður, Birkir Jón Jónsson, að hann hygðist hætta afskiptum af stjórnmálum í bili. Stuttu síðar lýsti Siv Friðleifsdóttir, fyrrverandi ráðherra, því yfir að þingferill hennar væri á enda.

Ekki eru allir flokksmenn á eitt sáttir við þá spillingu og sérhagsmunagæslu sem einkennt hefur flokkinn í áranna rás. Einnig fer fyrir brjóstið á sumum að flokkurinn hafi nú haslað sér völl sem helsti þjóðernisflokkur landsins. 

Jafnvel hörðustu framsóknarmönnum er nóg boðið.

 • Einar Skúlason, fyrrum varaþingmaður, sagði sig úr Framsóknarflokknum vegna „þjóðernisíhaldssemi“ sem honum þótti ráða ríkjum. Einar sá er mörgum kunnur eftir að hafa leitt lista framsóknarmanna í Reykjavík vopnaður slagorðinu góða „Þú meinar Einar“.
 • Þráinn Bertelsson, núverandi þingmaður Vinstri grænna, sagði sig úr Framsóknarflokknum með þeim orðum að hann „aðhylltist ekki pólitík reykfylltra bakherbergja“. Vera má að reykfyllt bakherbergi hafi einnig farið illa í Siv Friðleifsdóttur sem reyndi ásamt öðrum framsóknarmönnum að banna reykingar á sínum tíma.
 • Pétur Gunnarsson, trúnaðarmaður Framsóknarflokksins til margra ára, flúði flokkinn eftirminnilegan hátt. Kunni hann illa við „hrægammakapítalisma“ flokkssystkina sinna.
 • Gísli Tryggvason, talsmaður neytenda, var gallharður framsóknarmaður þar til fyrir skömmu.
 • Bjarni Harðarson, tæknitröllið mikla og fyrrum þingmaður flokksins hröklaðist burt og er afskaplega feginn.
 • Guðmundur Steingrímsson, sonur fyrrverandi forsætisráðherra Framsóknarflokksins, sá sig knúinn til þess að halda á brott og stofna flokk með hallærislegasta nafn í heimi.

Svo mætti lengi áfram telja. Framsóknarmenn geta þó huggað sig við það að Jónína Benediktsdóttir og Frosti Sigurjónsson hafa slegist í hópinn. En á heildina litið virðist flokkurinn vera í útrýmingarhættu.

Framsóknarmenn sækja ekki fram lengur. Flestir sækja bara burt.