Björt eða óljós framtíð?

by Althingisvaktin

Guðmundur Steingrímsson er pólitískur flökkumaður. Fyrst var hann í Samfylkingunni, svo prófaði hann Framsókn og nú hefur hann stofnað Bjarta framtíð. Leitun er að stjórnmálaflokki sem heitir jafn hallærislegu nafni.

Björt framtíð sendi út ályktun í dag þar sem stefnumál flokksins eru kunngerð. Þetta lítur svo sem ágætlega út á pappír; þarna eru nefnd ýmis þjóðþrifaverk sem gott væri að ná í gegn. Hins vegar er erfitt að skilja hvers vegna það þurfti að stofna nýjan flokk til að berjast fyrir þeim. Í grunninn er stefna Bjartrar framtíðar sósíaldemókratísk og keimlík stefnu Samfylkingarinnar og Vinstri grænna. Kannski er skýringin sú að Guðmundur og félagar vilja ráða því hverjir eru í framvarðasveit flokksins. Erfitt er að sjá að jafnaðarstefnunni sé unnið mikið gagn með enn einu framboðinu.


Í ályktuninni er ósköp fátt sagt um skuldamál og skattamál. Hvergi er fjallað um afstöðu flokksins til kirkjuskipunar og aðildar að Atlantshafsbandalaginu. Peninga- og gjaldmiðlamál eru afgreidd með nokkrum pennastrikum.

Svo virðist sem flokksmenn Bjartrar framtíðar byggi framtíðaráform flokksins á þeirri von að Ísland gangi í Evrópusambandið. Samt sem áður benda skoðanakannanir til þess að aðildarsamningi verði hafnað með afgerandi hætti í þjóðaratkvæðagreiðslu. Mun Björt framtíð leggja upp laupana ef svo fer?

Ótal spurningum er ósvarað. En það vantar svo sannarlega ekki húmorinn hjá Bjartri framtíð: „Almennt ríki minna vesen. Ísland vinni Eurovision.“ Hohoho!