Þröngt hjá þingforseta
by Althingisvaktin
Fáir hafa orðið jafn grimmilega fyrir barðinu á þrengingum efnahagshrunsins og forseti Alþingis, Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir. Að henni er þrengt úr öllum áttum. Á fundarpöllum Alþingis hefur hún vart undan við að siða Alþingismenn til sem ýmist gagnrýna ekki störf hennar nægilega eða misþyrma móðurmáli hennar.
Ásta Ragnheiður er friðarhöfðingi Alþingis. Hún tekur skýra afstöðu gegn nímenningum sem dirfast að raska friði þess og frelsi. Ásta er svo hörð í horn að taka að hún lætur sér ekki nægja að refsa friðarspillunum heldur vill hún bola burt öllu því sem minnir á aðförina að fílabeinsturninum. Ó hvað þingið er heilagt. Heilagleikinn hreinlega drýpur af því. Og einkaframtakið skal ekki dirfast að varpa skugga sínum yfir þinghúsið. Það krefst móðurlegrar verndar Ástu Ragnheiðar Jóhannesdóttur. Og þegar hún hættir sér út úr bænum, hvað gerist þá? Jú, það er þuklað á henni. Hvergi þó meira en í Leifsstöð.
Þvílík óheppni fyrir aumingja Ástu að það eina í verksviði hennar sem forseti skuli einmitt vera reglulegar heimsóknir í þessar Guantanamobúðir Íslands.
Hinar hræðilegu þrengingar Ástu Ragnheiðar bitna ekki aðeins á henni sjálfri, heldur ekki síður á þeim sem standa henni næst. Þessu hefur Alþingisbjallan fengið að kynnast á hrottalegan hátt:
Ásta hefur taktinn svo sannarlega í sér. Ljóst er að hún hefur engu gleymt frá gömlu góðu Glaumbarsdögunum.