Bjarni Ben vs. umhverfið

by Althingisvaktin

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins fór á kostum í þættinum Harmageddon um helgina. Frammistaða hans er efni í ótal pistla á Alþingisvaktinni. Byrjum samt á því að rýna í nokkur ummæli sem varpa ljósi á afstöðu formannsins til umhverfisverndar og virkjanaframkvæmda.


Bjarni sagði:

Og þegar menn komu í veg fyrir að álver risi á Bakka, heldurðu að það álver hafi ekki verið byggt? Jú, það var reist annars staðar og þar sem það var byggt, þar var verið að brenna gasi til að framleiða rafmagnið.

Þetta er sama nauðhyggjan og var ríkjandi á árunum fyrir hrun. Ef við drekkjum ekki landsvæðunum okkar og reisum álver þá gerir það bara einhver annar. Með þessu réttlættu virkjanasinnar glórulausar virkjanaframkvæmdir út um hvippinn og hvappinn og seldu álfyrirtækjunum orkuna á spottprís.

Svo er annað sem er athugavert við þessi ummæli. Bjarni situr á Alþingi Íslendinga og veit ekki baun í bala um álverið á Bakka.  Sannleikurinn er sá að Alcoa sótti aldrei um lóð fyrir álverið og fékkst ekki til viðræðna um mögulegt orkuverð. Ákveðið var að halda möguleikanum á fleiri kaupendum opnum og selja orkuna á sem hæstu verði – ólíkt því sem tíðkaðist í stjórnartíð Sjálfstæðisflokksins. Og þá trompaðist stjórnarandstaðan.

Efnahagsleg rök fyrir álveri á Bakka virðast aldrei hafa staðist skoðun. Stóriðjuorðræða Sjálfstæðisflokksins hampar í raun niðurgreiðslu á rafmagni, losun á reglum og félagslegu undirboði til að lokka siðlausustu fyrirtæki í heimi til Íslands.

Hvað sagði Bjarni fleira?

Það er misskilningur þetta með álverin almennt að þau séu svo gríðarlega umhverfisspillandi starfsemi. Ál er grænn málmur.

Þetta er gömul tugga sem hefur verið marghrakin. Álframleiðsla krefst námavinnslu á báxíti sem er gríðarlega mengandi. Hún fer fram í löndum eins og Jamaíka og Indlandi þar sem sömu fyrirtækin og ásælast íslenskar auðlindir, Alcoa og Rio Tinto, valda spjöllum á náttúru, vatnafari og ræktarlöndum. Ekki hefur mikið verið skrifað um þetta á íslensku en vert er að benda á grein eftir Berg Sigurðsson og Einar Þorleifsson sem birtist í Fréttablaðinu árið 2010. Þar taka þeir saman ýmsar staðreyndir um áliðnaðinn, setja í alþjóðlegt samhengi og segja meðal annars:

Ál er m.a. notað í óumhverfisvænar umbúðir, t.d. áldósir og álpappír, sem ættu að vera með öllu óþarfar. Talið er að allt að 30% álsins séu notuð í hergagnaframleiðslu en afar erfitt er að finna tölulegar upplýsingar um þau mál. Álduft er þar notað sem sprengiefni í hitasprengjum (þ.e. thermobaric bombs) sem losa gríðarlegan varma. 

Grænn málmur segir Bjarni. Iss piss, hergagnaframleiðsla, eitthvað ofan á brauð.

Áfram með smjörið:

Ísland hefur ekki efni á afturhaldssamri orkunýtingarstefnu.

Af samhenginu að dæma virðist Bjarni eiga hér við að Ísland hafi ekki efni á því að halda aftur af virkjanaframkvæmdum í þágu umhverfisverndar. Hvernig lýsir maður svona hugsunarhætti? Þjóðhverfur þankagangur? Veruleikafirring? Græðgi?

Ef Ísland, eitt ríkasta land í heimi, hefur ekki efni á því að sporna gegn loftslagsbreytingunum sem eru að rústa vistkerfi jarðarinnar, hvaða þjóð má þá við því? Hér talar formaður eins stærsta stjórnmálaflokks á Íslandi eins og hann líti á umhverfisvernd sem einhvers konar lúxus sem sé bara í boði á meðan góðæri ríkir. Þegar litið er yfir 18 ára stjórnartíð Sjálfstæðisflokksins má hins vegar ljóst vera að það skiptir engu máli hvort það er góðæri eða kreppa; það er alltaf pláss fyrir eina virkjun í viðbót.


Getur hugsast að Bjarni Benediktsson sé ósammála þeim 97% loftslagsvísindamanna sem telja að loftslagsbreytingarnar séu af manna völdum? Varla er hann svo mikill repúblikani. Sýnum Bjarna þá sanngirni að gera ráð fyrir því að hann átti sig á loftslagsvandanum. En þá kemur upp önnur spurning: Dettur honum ekkert í hug að við Íslendingar höfum einhverjum skyldum að gegna við plánetuna og vistkerfið okkar? Erum við bara stikkfrí vegna þess að hér varð efnahagshrun?

Loftslagsbreytingar eru ekkert grín. Og fátt er ömurlegra en veruleikafirrtir pólitíkusar sem horfast ekki í augu við vandann. Taka skammtímahagvöxt fram yfir möguleika afkomenda okkar til mannsæmandi lífs á jörðinni. Það er þó jákvætt að Bjarni skuli hafa talað svona afdráttarlaust. Nú vitum við upp á hár á hverju við eigum von ef Sjálfstæðisflokkurinn kemst aftur til valda.


Það þarf stundum útlendinga til að koma vitinu fyrir Íslendinga. Þetta verk er eftir listamanninn Jonathan Woods og heitir Iceland Can. Það myndi sóma sér vel uppi á vegg hjá Bjarna Benediktssyni.

Uppfært 24. september: Glöggur lesandi benti Alþingisvaktinni á að ófáar greinar hafa verið skrifaðar um álframleiðslu og báxít á íslensku. Hafa margar þeirra birst á vefsvæði Saving Iceland:

http://www.savingiceland.org/is/2011/05/suralsslys-a-indlandi-vedanta-enn-a-ferd/
http://www.savingiceland.org/is/2011/04/glaepaferill-rio-tinto-alcan/
http://www.savingiceland.org/is/2010/11/%E2%80%9Esaga-kapitalismans-er-vordud-med-ofbeldi%E2%80%9C-%E2%80%93-vidtal-vid-samarendra-das/
http://www.savingiceland.org/is/2010/10/frumvinnsla/
http://www.savingiceland.org/is/2010/08/samviska-heimsins-%E2%80%93-vi%C3%B0tal-vi%C3%B0-samarendra-das/
http://www.savingiceland.org/is/2010/07/%C3%BEjaningar-%C3%BEeirra-lagt-settu-og-samsekt-okkar/
http://www.savingiceland.org/is/2009/11/er-verkaly%C3%B0sbaratta-bara-v%C3%A6l/
http://www.savingiceland.org/is/2009/09/natturuvernd-er-ekki-velmegunarpolitik/
http://www.savingiceland.org/is/2008/08/imyndarleikur-ali%C3%B0na%C3%B0arins/
http://www.savingiceland.org/is/2008/07/alframlei%C3%B0slan-i-hnattr%C3%A6nu-samhengi/

Von er á öðrum pistli um frammistöðu Bjarna Benediktssonar í Harmageddon. Allir þeir sem vilja fylgjast með Alþingisvaktinni eru eindregið hvattir til að læka hana á Facebook (sjá hér til hægri). Þannig má stækka lesendahópinn.