Kögunarbarn í klípu – Sigmundur játar sig sigraðan í Reykjavík
Framsóknarflokkurinn er í tilvistarkreppu. Einu sinni var hann bændaflokkur. Svo varð hann stóriðju- og spillingarflokkur. Nú virðist hann hins vegar standa fyrir fátt annað en lágkúru og bjánaskap.
Fylgi Framsóknarflokksins á höfuðborgarsvæðinu er í sögulegu lágmarki. Hefð hefur verið fyrir því innan flokksins að formaðurinn (að Guðna Ágústssyni undanskildum) bjóði sig fram í öðru af Reykjavíkurkjördæmunum. Ef marka má könnun Gallup frá því í vor er útlit fyrir því að flokkurinn nái ekki inn þingmanni í Reykjavíkurkjördæmi norður. Þetta setur bersýnilega strik í reikninginn hjá formanni flokksins, Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni sem sækir fylgi sitt þangað.
Sigmundur kallar ekki allt ömmu sína. Öll munum við eftir íslenska kúrnum og drengilegri framgöngu Sigmundar í stríðinu gegn aukakílóunum. Fyrir sama metnaðinum er hins vegar ekki að fara þegar kemur að því að auka fylgi Framsóknarflokksins á höfuðborgarsvæðinu. Til að bjarga eigin skinni ætlar Sigmundur að leita á náðir kjósenda í höfuðvígi Framsóknarflokksins, Norðausturkjördæmi. Þar liggur hins vegar rauðvínsunnandinn Höskuldur Þórhallsson á fleti fyrir.
Samkvæmt heimildum Alþingisvaktarinnar íhugaði Sigmundur að sækja fram í Suðurkjördæmi fyrir þingkosningarnar árið 2009. Flokksmenn réðu honum þó frá því og bauð hann sig fram í Reykjavík norður þar sem fylgið var og er hvað dræmast. Ótti Sigmundar um að hljóta ekki þingsæti var á rökum reistur því hann var næstsíðasti þingmaðurinn til að komast inn úr kjördæminu að jöfnunarsætum undanskildum.
Sigmundur vill að Höskuldur víki fyrir sér en Höskuldur lætur engan bilbug á sér finna. Stjórnmálaferill Sigmundar er í húfi – það er úti um hann ef Kögunarbarnið vinnur ekki Höskuld í baráttunni um fyrsta sætið.
Á meðan bræðravígin eiga sér stað sefur Ásmundur bóndi værum blundi.