Þjóðremba Framsóknarflokksins
by Althingisvaktin
Þjóðremba er tvíeggja sverð í höndum stjórnmálamannsins. Með henni getur pólitíkusinn kitlað ákveðinn hóp fólks og sankað að sér kjánaatkvæðum. Aftur á móti leggst hún illa í flest sæmilega skynsamt fólk.
Með því að sveipa þjóðrembuna sakleysislegum klæðum má koma í veg fyrir að hún falli í grýttan jarðveg hjá almenningi. Þess vegna virkar krúttleg og dálítið hallærisleg þjóðremba best. Framsóknarflokkurinn hefur fullkomnað þessa list.
Framsóknarflokkurinn hefur verið í alvarlegri tilvistarkreppu síðustu áratugi. Eitt sinn hafði Framsóknarflokkurinn raunverulega hugsjón, samvinnustefnuna. Fyrir samvinnumönnum var ekkert ógeðfelldara en fjárglæframenn og braskarar. En samvinnuhugsjónin hafði visnað löngu áður en Sambandið leið undir lok. Fyrir vikið gátu framsóknarbroddarnir tæmt sjóði Samvinnutrygginga og sölsað undir sig aðrar eignir samvinnufélaganna. Meðan þær gripdeildir áttu sér stað gerðist Framsókn flokkur fjárglæframanna.
Einu sinni var framsókn líka bændaflokkur. Svo varð hann stóriðju- og spillingarflokkur.
Og nú virðist Framsókn ætla að hasla sér völl sem flokkur þjóðlegra gilda. Framsóknarmenn hafa áður daðrað við þjóðrembu og framámenn flokksins hafa þurft að svara fyrir rasisma eða kynþáttahyggju. Þjóðlegu gildin hafa því alltaf verið til staðar, en það er forvitnilegt að greina birtingarmyndir þjóðrembings framsóknarmanna á síðustu árum. Við getum nefnilega greint tvo ólíka þræði í þjóðrembingi framsóknarflokksins. Annar þráðurinn er talsvert ógeðfelldari en hinn þótt báðir séu hættulegir.
Árið 1995 var staðhæft á forsíðu Alþýðublaðsins að Guðni Ágústsson, fyrrverandi formaður flokksins ætti aðild að félaginu Norrænt mannkyn – félagi sem barðist fyrir því að flóttamenn og innflytjendur væru reknir úr landi.
Tveir formenn félagsins vottuðu skriflega að Guðni Ágústsson væri meðlimur félagsins en sjálfur hafnaði hann hvers kyns tengslum við rasistafélagið. Mál Guðna minnir óneitanlega á vandræði Todd Palin, eiginmanns Söruh Palin, sem var um árabil meðlimur í félagsskap róttækra þjóðernissinna í Alaska en neitaði því svo staðfastlega eftir að hann áttaði sig á því að aðild að öfgasamtökum væri vond fyrir stjórnmálaframa fjölskyldunnar.
Enn situr eftir sú spurning hvort formenn Norræns mannkyns hafi logið upp á Guðna Ágústsson eða hvort hann hafi séð pólitískum hag sínum best borgið með því að segjast aldrei hafa tilheyrt samtökunum. Lesendur geta sjálfir velt því fyrir sér hvort er líklegra. Hvað sem þessum virðingarmanni innan Framsóknarflokksins þykir um útlendinga þá liggur afstaða hans til samkynhneigðar fyrir.
Vandræði Guðna eru gott dæmi um vanda stjórnmálamanna sem langar að spila á strengi þjóðernishyggju en vilja um leið birtast almenningi sem skynsamir og yfirvegaðir.
Líkt og fyrr segir hefur Framsóknarflokkurinn undir stjórn Sigmundar Davíðs reynt að feta þetta einstigi með því að klæða þjóðernishyggjuna í kjánalega einlægan búning. Pastelliti og ungmennafélagshallæri.
Sigmundur Davíð er Íslandsmeistari í krúttlega hallærislegri þjóðerembu, ólíkt t.d. Ólafi Ragnari sem er yfirleitt svo yfirgengilegur í sinni þjóðrembu að flest sómakært fólk roðnar af skömm. Auðvitað hefur Alþingisvaktin ekkert á móti sláturáti Sigmundar:
Svo eru dólgslæti Sigmundar Davíðs, Gunnars Braga og Ásmundar Einars fyrir utan Íslenska barinn líka fyrirgefanleg.
Íslenski barinn er þekktur fyrir að bjóða upp á íslenskar afurðir af ýmsu tagi og þar á meðal íslenskan mjöð. Það er spurning hvort Sigmundur Davíð sé enn á umræddum kúr og hvort ákefðin við að komast inn á Íslenskan barinn hafi tengst einlægum áhuga hans á íslenskri fæðu.
Framsóknarflokkur Sigmundar hefur verið iðinn við svona sprell á undanförnum árum. Á flokksráðsfundi Framsóknarflokksins árið 2011 var t.d. haldin glímusýning og fánahylling. Jafnframt var nýtt slagorð flokksins kynnt til sögunnar: Ísland í vonanna birtu!
Eiríkur Bergmann Einarsson, stjórnmálafræðingur, gerði þetta að umtalsefni í Fréttatímanum og sagði flokkinn vera farinn að daðra við þjóðernisstefnu og „fasísk minni“. Þá brást þingkonan Vigdís Hauksdóttir ókvæða við og krafðist þess að Eiríkur yrði rekinn frá Háskólanum á Bifröst. Þessi viðbrögð – sem jöðruðu við að vera fasísk – staðfestu að einhverju leyti gagnrýni Eiríks. Það er svo önnur saga að ofsafengin viðbrögð Vigdísar voru ákveðinn fyrirboði teboðstaktanna sem sjálfstæðismenn hafa gerst sekir um að undanförnu.
Stundum hefur Sigmundur farið gjörsamlega yfir strikið. Meira að segja flokkssystkinum hans í Kópavogi varð nóg um þegar hann lagði fram fyrirspurn á Alþingi um hlut fólks sem er af erlendu bergi brotið í skipulagðri glæpastarfsemi. Skömmu áður hafði hann fullyrt í útvarpsviðtali að fjárfestingar innlendra fjármagnseigenda væru æskilegri en útlendra, því að þeir síðarnefndu sæktust fyrst og fremst eftir gróða sem flytja mætti úr landi.
Fyrirspurnir eða orðræða sem tengir saman glæpi og útlendinga og sjúkdóma og útlendinga eru til þess fallnar að auka á fordóma í samfélaginu og draga úr umburðarlyndi og samhug
sagði í ályktun framsóknarmanna í Kópavogi.
Málflutningur á borð við þann sem Sigmundur býður upp á er vatn á myllu þeirra sem hatast við útlendinga. Og þá komum við að enn einu dæminu; framsóknarþingmanni sem virðist leggja sig sérstaklega fram við að halda hlífiskildi yfir embættismanni sem níðir skóinn af hælisleitendum.
Kristín Völundardóttir, forstjóri Útlendingastofnunar, vakti nýlega hneykslan með því að dylgja um skjólstæðinga sína, hælisleitendur, og gefa í skyn að þeir lifðu sníkjulifnaði á Íslandi. Hún vísaði ekki í neitt máli sínu til stuðnings og viðurkenndi reyndar í sama viðtali að Útlendingastofnun væri of undirmönnuð til að geta sinnt rannsóknarstörfum.
Ögmundur Jónasson, innanríkisráðherra, gagnrýndi Kristínu kurteislega í kvöldfréttum RÚV og boðaði hana á fund vegna ummælanna. Þá stökk Sigurður Ingi Jóhannesson, þingmaður Framsóknarflokksins, upp á nef sér og kvartaði undan þöggun og „árásum ráðherra“.
Skömmu síðar stakk Vigdís Hauksdóttir upp á því á Alþingi að hælisleitendur yrðu látnir bera ökklabönd með GPS sendum. Þessum hugmyndum er svarað hressilega hér og í grein eftir sama höfund er sýnt fram á vanþekkingu Vigdísar á Dyflinnarreglugerð Evrópusambandsins. Vigdís hafði varla sleppt orðinu fyrr en þessi skopmynd fór á flug í netheimum:
Vigdís Hauksdóttir vill ekki aðeins að hælisleitendur gangi með ökklabönd, heldur vill hún líka að íslenska ríkið dragi úr útgjöldum til þróunarmála. Eins og staðan er núna renna aðeins 0,22% af þjóðarframleiðslu okkar til þróunarverkefna og að þessu leyti stöndum við samanburðarlöndum okkar langt að baki. Þetta finnst Vigdísi hins vegar óþarfa fjáraustur sem nauðsynlegt sé að skera niður:
Fólki hættir stundum til að fókusera um of á Vigdísi Hauksdóttur. Skiljanlega. Alþingisvaktin telur hins vegar að með því séum við að horfa fram hjá dýpra og alvarlegra vandamáli. Það er nefnilega ekki svo langt síðan Sigmundur Davíð fór mikinn á flokksþingi Framsóknarflokksins í þvaðri um sjálfstæðishetjurnar, þorskastríðin og kraftinn sem blundaði með íslensku þjóðinni.
Undir krúttlegri og pastellitaðri sviðakjammaþjóðernishyggju Sigmundar leynist nefnilega þjóðrembingur sem er mun varasamari. Og krúttlegt sláturátið dregur athygli okkar frá því að forystumenn flokksins hafa kerfisbundið slegið á strengi útlendingahaturs. Slíkt er stórhættulegt.
Þjóðrembuorðræðan virðist ekki hafa truflað kjósendur flokksins hingað til. Raunar mælist Framsóknarflokkurinn með metfylgi um þessar mundir. Á óvissutímum er ekki óalgengt að þjóðrembuflokkar sæki í sig veðrið.