10 heimskulegustu ummæli ársins 2012

by Althingisvaktin

Stundum pissa þingmenn þjóðarinnar í skóinn sinn og segja einhverja bölvaða dellu. Þá er það þjóðþrifaverk að halda ummælunum til haga.

10.

Screen shot 2013-01-02 at 12.03.54 AM

„Er farin að hallast að því að „ráðendur“ noti iðnaðarsaltið til að tala niður íslenska framleiðslu og landbúnaðarafurðir – sé að krataáróðurinn stefnir í þá átt !!!“

sagði Vigdís Hauksdóttir, þingkona Framsóknarflokksins, í ársbyrjun þegar umræðan um iðnaðarsaltið stóð sem hæst. Íslensk framleiðsla, íslenskar landbúnaðarafurðir og síðast en ekki síst íslenski kúrinn eiga sér öfluga málsvara á Alþingi.

9.

„Íslendingar sem fara niðrí miðbæ á sitt kaffihús sem þeir hafa kannski gert árum saman komast ekki að vegna þess að það er allt fullt af einhverjum ferðamönnum. Ferðamennskan sviptir okkur Íslendinga því umhverfi sem við búum í og höfum alist upp í. Við getum ekki lengur farið á Þingvöll og notið þess að standa á hakinu og horfa á Þingvelli. Við getum ekki lengur farið á Gullfoss og Geysi og notið þess að fara þangað því það eru þúsundir útlendinga þar sem að trufla mann í sínu eigin landi“

sagði hinn þjakaði Þór Saari, þingmaður Hreyfingarinnar, í útvarpsviðtali á Bylgjunni. Það er vandlifað í þessu landi.

8.

„Ég styð aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu – sem vel að merkja fer ekki með hernaði á hendur nokkru ríki og getur því ekki talist hernaðarbandalag. Öll lýðræðisriki hafa rétt til sjálfsvarnar“

sagði Árni Páll Árnason, vonarstjarna Samfylkingarinnar, á beinni línu hjá DV. Þannig sendi hann hugheila kveðju til þeirra 1100 óbreyttra borgara sem NATO-herirnir slátruðu í Líbíu í fyrra. Öll lýðræðisríki hafa nefnilega rétt til sjálfsvarnar.

7.

„Það er misskilningur þetta með álverin almennt að þau séu svo gríðarlega umhverfisspillandi starfsemi. Ál er grænn málmur. […] Ísland hefur ekki efni á afturhaldssamri orkunýtingarstefnu“

sagði Bjarni Benediktsson í viðtali hjá Harmageddon. Af samhenginu að dæma meinti hann að Ísland hefði ekki efni á því að halda aftur af virkjanaframkvæmdum í þágu umhverfisverndar. Ef Ísland, eitt ríkasta land í heimi, hefur ekki efni á því að sporna gegn loftslagsbreytingunum sem eru að rústa vistkerfi jarðarinnar, hvaða þjóð má þá við því? Alþingisvaktin hrakti málflutning Bjarna Benediktssonar í pistlinum Bjarni Ben vs. umhverfið.

6.

„Tjónið af þessarri ríkisstjórn er orðið meira en tjónið af hruninu, þau klikkuðu á því að taka á lánamálum heimilanna, fjárfesting fór í sögulegt lágmark, atvinnuleysi hefur aukist meira en það þurfti að gera – þegar allt kemur saman þá er það tjón meira en nam hruninu sjálfu“

sagði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, í ræðu á miðstjórnarfundi flokksins. Séu hagtölur og aðrar vísbendingar um stöðu þjóðarbúsins skoðaðar er ekkert sem bendir til þess að hann hafi rétt fyrir sér. DV tók saman ósannindi Sigmundar Davíðs en í sömu ræðu og hann lét þessi orð falla sagði hann að Framsóknarflokkurinn væri „viti rökhyggju og skynsemi.“

5.

Screen shot 2013-01-02 at 12.11.15 AM

„Nú er það svo að framning á slíku voðaverki er okkur flestum sem betur fer óskiljanleg, þ.e. verknaðurinn sjálfur og það sem þarf til þess að fremja hann. Hitt er svo annað mál að það að slíkt skuli gerast í því ástandi sem hefur verið viðvarandi hér á landi undanfarin tæp fjögur er hreint ekki undarlegt eða óskiljanlegt“

skrifaði Þór Saari á bloggsíðu sína í kjölfar hnífsstunguárásarinnar á starfsmann lögmannastofu í Lágmúla. Hann uppskar reiði Sveins Andra Sveinssonar og smáfuglanna á AMX – sem fannst raunar verst að hann skyldi „fela sig á bak við konu“.

4.

„Hvernig ætla menn að botna þessa vísu? Menn eru eitthvað spenntir fyrir því að afnema Þjóðkirkjuna og aðskilja ríki og kirkju, en hvar á að botna þessa vísu? Hvað með krossinn í fánanum? Hvað með frídagana? Ætliði að halda upp á jólin? [innskot Alþingisvaktarinnar: Þegar hér var komið sögu bentu þáttastjórnendur á að jólin eru heiðinn siður og voru haldin hér á landi löngu áður en að Íslendingar tóku kristni] Áður en að kristnin kom? Hvar ætliði að botna þessa umræðu?“

Þessi orð lét Bjarni Benediktsson falla í hinu kostulega viðtali við Frosta og Mána í Harmageddon. Orðin urðu tilefni pistils á Alþingisvaktinni sem fékk heitið Bjarni Ben gerir sig að fífli.

3.

ImageHandler

„Ég vona að þið hafið báðir fermst strákar, er það ekki?“

Vigdís Hauksdóttir á heiðurinn af þessum gullkornum sem einnig féllu í Harmageddon. Þegar þáttastjórnendur minntust á kvenfyrirlitningu og hommahatur í Biblíunni svaraði Vigdís þeim eins og sönn teboðsdrottning: „Mér finnst þú frekar vera að lesa upp úr trúarriti múslima.“ Alþingisvaktin tók Vigdísi rækilega fyrir í pistlinum Brandarinn er búinn, Vigdís.

2.

558870_10151373550018804_912504386_n

„Það er að sjálfsögðu skýlaus krafa að til þess að Ísrael gæti öryggis borgara sinna verði líka gætt meðalhófs“

sagði Bjarni Benediktsson í sérstökum umræðum um deilurnar fyrir botni Miðjarðarhafs á meðan sprengjum rigndi yfir Gaza-svæðið. Þá hafði innanríkisráðherra Ísraels lýst því yfir að tilgangur árásanna væri sá að sprengja Gaza-svæðið aftur til miðalda. Netverjar voru fljótir að taka við sér og skömmu eftir að Bjarni hélt ræðu sína var myndin hér að ofan komin í dreifingu á Facebook. Alþingisvaktin velti þá fyrir sér hvort Bjarni Benediktsson vildi ef til vill frekar sprengja Gaza-svæðið aftur til endurreisnarinnar heldur en miðalda.

1. 

Screen shot 2013-01-02 at 12.01.53 AM

„Finnst engum athugavert að safna börnum og unglingum kerfisbundið saman á afskekktri eyju í þeim tilgangi að innræta þeim tiltekna flokkspólitíska stjórnmálaskoðun???“

skrifaði Tryggvi Þór Herbertsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, á Facebook-síðu sína sama dag og Anders Behring Breivik var dæmdur í lífstíðarfangelsi fyrir fjöldamorðin í Noregi. Illugi Jökulsson hitti naglann á höfuðið á bloggsíðu sinni: „Að nefna þetta í gær var eins og ef dauðadrukkinn ökufantur hefði keyrt niður barnið mitt á götuhorni og svo hefði Tryggvi Þór mætt í sjálfa erfidrykkjuna og klöngrast þar upp á stól síðla kvölds og heimtað að fá að halda ræðu: „Bölvuð fyllibyttan. En finnst engum athugavert að krakkanum skuli hafa verið hleypt út í stórhættulega umferðina?““ Í ofanálag var rifjað upp að sjálfur hafði Tryggvi sett stjórnmálaskóla Sjálfstæðisflokksins fyrir ungt fólk fyrr á árinu.

Uppfært 2. janúar, 04:37: Alþingisvaktinni barst ábending þess efnis að einhver ósmekklegustu ummæli þingmanns árið 2012 hefðu gleymst. Þessi frétt birtist í DV í júní:

Screen shot 2013-01-02 at 2.17.14 AM

Allir þeir sem vilja fylgjast með Alþingisvaktinni eru eindregið hvattir til að læka hana á Facebook (sjá neðst á síðunni). Þannig má stækka lesendahópinn.