Sjalladrama í Tampa?

by Althingisvaktin


Ragnheiður Elín Árnadóttir og Bjarni Benediktsson erum komin heim, endurnærð eftir að hafa drukkið úr viskubrunni repúblikana í Tampa-borg.

Repúblikanaflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn eiga ýmislegt sameiginlegt. Þeir aðhyllast báðir árásargjarna utanríkisstefnu. Báðir flokkarnir láta sig litlu varða um réttindi og lífskjör Palestínumanna. Og áherslurnar í skattamálum eru keimlíkar hjá þeim: lágtekjufólk skal borga brúsann. Þangað á að varpa skattbyrðinni svo hlífa megi ríku og duglegu einstaklingunum.

Repúblikanar hafa eflaust getað kennt sjálfstæðismönnum ýmislegt um það hvernig á að heyja stríð gegn konum. Og þeir hafa líklega upplýst Bjarna um það að hugmyndin um loftslagsbreytingar af manna völdum er eitt risastórt samsæri vinstrimanna til að lama atvinnulífið. Boðskapur Repúblikanaflokksins á sviði umhverfismála ætti að hvetja sjálfstæðismenn til dáða hvað varðar stóriðju og olíuborun.

Ragnheiður Elín var á ráðstefnunni í umboði Sambands evrópskra íhalds- og umbótasinna. Það er býsna þversagnakennt nafn á samtökum. Félagar sambandsins fræddu víst fundargesti um hætturnar af Evrópuvæðingu Bandaríkjanna, sem felst í heilbrigðisumbótum Barack Obama.

Mikið hlýtur lágstéttarfólk vestanhafs að vera þakklátt Ragnheiði, íslenskri kjarnakonu sem leggur lóð sín á vogarskálarnar í baráttu gegn auknu aðgengi almennings að heilbrigðisþjónustu. Ætli Ragnheiður verði samkvæm sjálfri og sér og taki upp sömu baráttumál hér á landi þegar Alþingi kemur saman á ný?

Það mun hún ekki geta gert sem þingflokksformaður því stuttu eftir að hún lenti á Íslandi var ákveðið að hún skyldi víkja fyrir Illuga Gunnarssyni, fyrrverandi stjórnarmanni Sjóðs 9 sem ríkið lagði til 11 milljarða í hruninu.


Svo virðist sem Bjarni Benediktsson hafi stutt Illuga og gert það að sínu fyrsta verki eftir Tampa-förina að hrekja Ragnheiði úr sæti þingflokksformanns.

Hvað kemur til? Hvað gerðist í Tampa? Röð atburða kemur ímyndunaraflinu svo sannarlega á flug.

Allir þeir sem vilja fylgjast með Alþingisvaktinni eru eindregið hvattir til að læka hana á Facebook (sjá hér til hægri). Þannig má stækka lesendahópinn.