Takk!

by Althingisvaktin

Þingmönnum er úthúðað á hverjum einasta degi. Í kommentakerfum vefmiðlanna, í fjölskylduboðum, á Útvarpi Sögu og þótt víðar væri leitað. Orðræðan einkennist af skammaryrðum: Samspillingin, SjálfstæðisFLokkurinn, Fjórflokkurinn.

Það er sami rassinn undir þeim öllum, burt með pakkið!“ kalla hinir sjálfskipuðu siðgæðispostular sem telja jafnvel að þeir séu með einhverjum hætti hafnir yfir stjórnmálaumræðuna. „Þetta er sandkassaleikur sem kemur mér ekki við,“ segja þeir og þannig firra þeir sig þeirri ábyrgð sem fulltrúalýðræðið leggur á hvern einasta samfélagsþegn.

Alþingisvaktinni er meinilla við lýðskrum og lygar. Henni finnst ömurlegt þegar stjórnmálamenn brjóta lög, segja tóma tjöru eða ganga erinda sérhagsmunahópa. Samt sem áður mun Alþingisvaktin aldrei taka undir þá orðræðu sem lýst var hér að ofan.

Á Alþingi starfa 63 þingmenn og enginn þeirra er eins. Sumir þeirra eru með hernaðarblæti. Aðrir hafa þegið himinháa styrki frá útrásarvíkingum. Enn aðrir eiga ömurlega viðskiptafortíð að baki og víla ekki fyrir sér að skrifa undir fölsuð plögg.

En flestir þingmannanna eru eflaust að gera sitt allra besta. Þeir liggja yfir þingskjölum, standa í stöðugum málamiðlunum og sitja á löngum og eflaust drepleiðinlegum nefndafundum. Og þegar heim er komið blasa við formælingar og fúkyrði í netheimum og á síðum dagblaðanna.

Alþingisvaktin mun ekki sýna svörtum sauðum á þinginu neina miskunn. Hér verður fjallað vafningalaust og harkalega um viðskiptafortíð, hræsni, sérhagsmunapot og bjánaskap. Enda er gagnrýni og aðhald forsenda þess að lýðræðið sé lýðnum til hagsbóta.

Gleymum því samt ekki að þingmenn eru líka menn. Verum þakklát þeim sem nenna að standa í þessu stappi af góðum hug.

Þingmenn fá sjaldan hvatningu og hrós. En í dag vill Alþingisvaktin beina til (flestra) þeirra þessum orðum:

Takk fyrir og gangi ykkur vel!