Furðukannanir í auglýsingaskyni?

by Althingisvaktin

Um daginn flutti útvarpsþátturinn Sprengisandur á Bylgjunni þær merkilegu fréttir að samkvæmt könnunum væri stjórnmálaflokkur fjárglæframannsins Guðmundar Franklíns Jónssonar, Hægri grænir, orðinn stærri en Vinstrihreyfingin grænt framboð. Þessi merkilega niðurstaða vakti  vitaskuld athygli, og var étin hrátt upp á Eyjunni sem skellti því upp í fyrirsögn að könnunin sýndi „Algert hrun stjórnarflokkanna“.

Stjórnarflokkarnir Samfylking og Vinstrihreyfingin – grænt framboð horfa fram á algjört hrun á fylgi sínu frá síðustu kosningum, sé eitthvað að marka skoðanakönnun sem Plúsinn gerði fyrir útvarpsþáttinn Sprengisand með Sigurjóni M. Egilssyni og birt var í morgun.

Í könnuninni mælast Vinstri grænir með ótrúlega lítið fylgi miðað við síðustu alþingiskosningar, eða 5,7% fylgi.  Samfylkingin, fengi hins vegar 14,4%. Það þýðir að ríkisstjórnarflokkarnir tveir mælast með fylgi upp á um 20% og er því ríkisstjórnin samkvæmt því kolfallin, svo vægt sé tekið til orða.

Til að leggja enn frekar áherslu á fylgisleysi stjórnarflokkanna benti Eyjan á að fylgi VG væri nú minna en Hægri grænna og það þó Hægri grænir væru ekki búnir að setja saman framboðslista:

Athygli vekur í könnuninni, að Hægri grænir undir forystu Guðmundar Franlíns Jónssonar mælast með 6% fylgi, eða meira en Vinstri grænir. Þó hafa Hægri grænir ekki birt neina framboðslista fyrir kosningarnar sem framundan eru og hafa raunar auglýst eftir frambjóðendum.

Maður hefði haldið að þetta eitt ætti að vekja spurningar um könnunina og hvort hún sé marktæk. Hægri grænir með 6% fylgi? Trúir því einhver?

Síðan þá hefur Sprengisandur á Bylgjunni hins vegar birt niðurstöður hverrar könnunarinnar á fætur annarri og flestar eru þær stórfurðulegar.

Allar eru þessar kannanir gerðar af sama fyrirtæki sem heitir „Plúsinn“ og sér um vefsíðuna plus.is. Ein könnun sýndi rífandi fylgi Framsóknarflokksins eftir Icesave: Flokkurinn kominn í 20% fylgi. Önnur sýndi að nýr formaður Samfylkingarinnar, Árni Páll Árnason, væri að sópa fylgi til flokksins. Eyjan flutti fréttir af öllum könnunum, enda sá vefmiðill, ásamt Evrópuvaktinni, sem hvað mest hefur hossað Árna Páli og heldur úti sérstökum „samtalsvettvangi“ fyrir hann.

Nú má vel vera að þetta sé allt satt og rétt og niðurstöðurnar innan skekkjumarka.

Það er hins vegar full ástæða til að gjalda varhug við þessum könnunum. Skoðum fyrst fyrirtækið sem framkvæmir þær. Samkvæmt heimasíðu fyrirtækisins er aðferðafræði þess nokkuð sérstök:

Þú skráir þig og færð sendan myndrænan tölvupóst þar sem þú ert beðin/n um álit á vörum, þjónustu, viðburðum og málefnum almennt. Þú svarar póstinum einfaldlega með því að smella á valmöguleikana sem í boði eru. Það tekur tæpar 10 sekúndur að taka þátt! Og mundu þú eykur vinningslíkur þínar með hverri þátttöku!

Plúsfélagar geta átt vona á ýmsum glaðningum fyrir það eitt að taka þátt. Í hverjum mánuði vinnur einn heppinn félagi ferðavinning, að auki gefum við heppnum félaga 20.000kr peningaverðlaun í hverri viku. Einnig gefum við fullt af smærri vinningum í hverjum mánuði t.d. DVD myndir, geislaplötur og bíómiða.

Auk þess að hafa áhrif færð þú sem Plúsfélagi, margvísleg tilboð sem ekki standa öðrum til boða. Það kostar ekkert að vera í Plúsnum og allir 12 ára og eldri geta skráð sig.

Þú hefur engu að tapa, aðeins ávinningur!

Say what? Könnunin er semsagt einhvers konar leikur þar sem þáttakendur, allt niður í 12 ára gömul börn, geta unnið einhverja vinninga? Því miður vitum við ekkert frekar um aðferðafræðina, hvernig spurningarnar eru orðaðar og hvert svarhlutfallið er í hverri könnun. Eyjan greinir reyndar frá því að „úrtakið“ í könnuninni sem vísað er til að ofan hafi verið 800 manns,  sem þýðir líklega að 800 manns hafi svarað. En við vitum ekkert hvert svarhlutfallið var, hversu margir voru óákveðnir (og hvort það hafi yfirleitt verið valkostur). Aðferðafræðin er því öll á huldu. Fyrir utan það sem við vitum að könnunin er fullkomlega óvísindaleg sjálfvalskönnun.

En það er fleira sem vekur athygli við þetta fyrirtæki. Ef við heimsækjum vefsíðu Plússins blasir þetta við:

Heimasíða plússins, sem er hluti 365 miðla, hefur ekki verið uppfærð síðan haustið 2009.

Heimasíða plússins, sem er hluti 365 miðla, hefur ekki verið uppfærð síðan haustið 2009.

Það fyrsta sem maður tekur eftir er að nýjustu „vinningshafar vikunnar“ eru frá því í október 2009. Sem bendir til þess að síðan hafi annað hvort ekki verið uppfærð síðan 2009 – eða að hætt hafi verið að verðlauna þátttakendur fyrir rúmlega fjórum árum síðan. Hvorugt eykur trúverðugleika fyrirtækisins.

Það vekur ekki síður athygli að Plúsinn tilheyrir fjölmiðlasamsteypu 365, samanber merkingar neðst á síðunni. Það gerir Bylgjan, sem vekur sérstaklega athygli á könnununum, auðvitað líka.

En hverskonar fyrirtæki er Plúsinn? Útvarpsþátturinn Sprengisandur, Eyjan og aðrir sem hafa haft eftir niðurstöður úr könnunum Plússins vísa til hans eins og hér sé á ferð skoðanakannanafyrirtæki á borð við Gallup eða MMR, nema að plúsinn sérhæfi sig í netkönnunum. En samkvæmt vefsíðu Plússins er hann hins vegar markaðssetningarfyrirtæki! Viðskiptavinir eru hvattir til að auglýsa á Plúsnum. Þar er hins vegar ekki að finna orð um áreiðanlegar skoðanakannanir.

Plúsinn selur viðskiptavinum sínum  auglýsingar - ekki kannanir.

Plúsinn selur viðskiptavinum sínum auglýsingar – ekki kannanir.

Allt vekur þetta spurningar, og þá sérstaklega um afskipti fjölmiðla eins og 365 miðla af stjórnmálum. Er það í lagi að auglýsingadeild fjölmiðlasamsteypu, sem er leynt og ljóst í eigu eins umsvifamesta fjárglæframanns síðasta áratugar, nánustu fjölskyldu og samreiðarsveina, skuli stunda pólítískan áróður með furðukönnunum?

Allir þeir sem vilja fylgjast með Alþingisvaktinni eru eindregið hvattir til að gerast áskrifendur með því að læka hana á Facebook (sjá hér að neðan).