Alþingisvaktin

Merkimiði: Ragnheiður Elín Árnadóttir

Sjálfstæðisflokkurinn er karlaklúbbur – 10 staðreyndir

1.  Sjálfstæðisflokkurinn hefur verið til í meira en 80 ár. Aldrei nokkurn tímann hefur kona gegnt formannsstöðu í flokknum.

2.  Í fyrra bauð klár og skelegg kona sig fram til formanns á móti málhöltum karli með  vægast sagt ömurlega viðskiptafortíð og Vafning um hálsinn. Karlinn var endurkjörinn.

3.  Í síðustu tveimur kosningum leiddu fimm karlar framboðslista Sjálfstæðisflokksins á móti einni konu. Árið 2003 leiddu karlar alla framboðslista flokksins.

4.  Að undanförnu hefur konum fækkað í forystusveit Sjálfstæðisflokksins. Þegar fjölmiðlar fjölluðu um það froðufelldi hinn herðabreiði formaður á Facebook og sakaði þá um „áróðurskenndan uppspuna“ gegn Sjálfstæðisflokknum.

5.  Þegar karl þiggur og hefur milligöngu um milljónastyrki frá útrásarfyrirtækjum situr hann áfram á þingi. En þegar eiginmaður sjálfstæðiskonu á Alþingi þiggur himinhá kúlulán er konan tekin á teppið og hröklast af þingi. Bjarni Benediktsson réttlætti hegðun Guðlaugs Þórs en fór hörðum orðum um kúlulánamál Þorgerðar Katrínar.

6.  Það dugði ekkert nema einkaþotu til þegar kona bauð sig fram til formanns SUS árið 2009.

7.  SUS veitir sjálfstæðismönnum afar karllægt uppeldi. Á málefnaþingi SUS í ár töluðu 6 karlar en 1 kona. Með formennsku í málefnanefndum SUS fóru 7 pulsulegir drengir og engin stúlka.

8.  Sjálfstæðisflokkurinn er andsnúinn kynjakvótum.

9.  Sjálfstæðisflokkurinn bendlar sig blygðunarlaust við flokk sem á í harðvítugu stríði gegn konum og valfrelsi þeirra.

10. Þegar Sjálfstæðisflokkurinn sat síðast í ríkisstjórn voru 5 ráðherrar flokksins karlar og 1 ráðherra kvenkyns.

Allir þeir sem vilja fylgjast með Alþingisvaktinni eru eindregið hvattir til að læka hana á Facebook (sjá hér til hægri). Þannig má stækka lesendahópinn.

Sjalladrama í Tampa?


Ragnheiður Elín Árnadóttir og Bjarni Benediktsson erum komin heim, endurnærð eftir að hafa drukkið úr viskubrunni repúblikana í Tampa-borg.

Repúblikanaflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn eiga ýmislegt sameiginlegt. Þeir aðhyllast báðir árásargjarna utanríkisstefnu. Báðir flokkarnir láta sig litlu varða um réttindi og lífskjör Palestínumanna. Og áherslurnar í skattamálum eru keimlíkar hjá þeim: lágtekjufólk skal borga brúsann. Þangað á að varpa skattbyrðinni svo hlífa megi ríku og duglegu einstaklingunum.

Repúblikanar hafa eflaust getað kennt sjálfstæðismönnum ýmislegt um það hvernig á að heyja stríð gegn konum. Og þeir hafa líklega upplýst Bjarna um það að hugmyndin um loftslagsbreytingar af manna völdum er eitt risastórt samsæri vinstrimanna til að lama atvinnulífið. Boðskapur Repúblikanaflokksins á sviði umhverfismála ætti að hvetja sjálfstæðismenn til dáða hvað varðar stóriðju og olíuborun.

Ragnheiður Elín var á ráðstefnunni í umboði Sambands evrópskra íhalds- og umbótasinna. Það er býsna þversagnakennt nafn á samtökum. Félagar sambandsins fræddu víst fundargesti um hætturnar af Evrópuvæðingu Bandaríkjanna, sem felst í heilbrigðisumbótum Barack Obama.

Mikið hlýtur lágstéttarfólk vestanhafs að vera þakklátt Ragnheiði, íslenskri kjarnakonu sem leggur lóð sín á vogarskálarnar í baráttu gegn auknu aðgengi almennings að heilbrigðisþjónustu. Ætli Ragnheiður verði samkvæm sjálfri og sér og taki upp sömu baráttumál hér á landi þegar Alþingi kemur saman á ný?

Það mun hún ekki geta gert sem þingflokksformaður því stuttu eftir að hún lenti á Íslandi var ákveðið að hún skyldi víkja fyrir Illuga Gunnarssyni, fyrrverandi stjórnarmanni Sjóðs 9 sem ríkið lagði til 11 milljarða í hruninu.


Svo virðist sem Bjarni Benediktsson hafi stutt Illuga og gert það að sínu fyrsta verki eftir Tampa-förina að hrekja Ragnheiði úr sæti þingflokksformanns.

Hvað kemur til? Hvað gerðist í Tampa? Röð atburða kemur ímyndunaraflinu svo sannarlega á flug.

Allir þeir sem vilja fylgjast með Alþingisvaktinni eru eindregið hvattir til að læka hana á Facebook (sjá hér til hægri). Þannig má stækka lesendahópinn.