Alþingisvaktin

Merkimiði: Gullkorn

Bjarni Ben vs. umhverfið

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins fór á kostum í þættinum Harmageddon um helgina. Frammistaða hans er efni í ótal pistla á Alþingisvaktinni. Byrjum samt á því að rýna í nokkur ummæli sem varpa ljósi á afstöðu formannsins til umhverfisverndar og virkjanaframkvæmda.


Bjarni sagði:

Og þegar menn komu í veg fyrir að álver risi á Bakka, heldurðu að það álver hafi ekki verið byggt? Jú, það var reist annars staðar og þar sem það var byggt, þar var verið að brenna gasi til að framleiða rafmagnið.

Þetta er sama nauðhyggjan og var ríkjandi á árunum fyrir hrun. Ef við drekkjum ekki landsvæðunum okkar og reisum álver þá gerir það bara einhver annar. Með þessu réttlættu virkjanasinnar glórulausar virkjanaframkvæmdir út um hvippinn og hvappinn og seldu álfyrirtækjunum orkuna á spottprís.

Svo er annað sem er athugavert við þessi ummæli. Bjarni situr á Alþingi Íslendinga og veit ekki baun í bala um álverið á Bakka.  Sannleikurinn er sá að Alcoa sótti aldrei um lóð fyrir álverið og fékkst ekki til viðræðna um mögulegt orkuverð. Ákveðið var að halda möguleikanum á fleiri kaupendum opnum og selja orkuna á sem hæstu verði – ólíkt því sem tíðkaðist í stjórnartíð Sjálfstæðisflokksins. Og þá trompaðist stjórnarandstaðan.

Efnahagsleg rök fyrir álveri á Bakka virðast aldrei hafa staðist skoðun. Stóriðjuorðræða Sjálfstæðisflokksins hampar í raun niðurgreiðslu á rafmagni, losun á reglum og félagslegu undirboði til að lokka siðlausustu fyrirtæki í heimi til Íslands.

Hvað sagði Bjarni fleira?

Það er misskilningur þetta með álverin almennt að þau séu svo gríðarlega umhverfisspillandi starfsemi. Ál er grænn málmur.

Þetta er gömul tugga sem hefur verið marghrakin. Álframleiðsla krefst námavinnslu á báxíti sem er gríðarlega mengandi. Hún fer fram í löndum eins og Jamaíka og Indlandi þar sem sömu fyrirtækin og ásælast íslenskar auðlindir, Alcoa og Rio Tinto, valda spjöllum á náttúru, vatnafari og ræktarlöndum. Ekki hefur mikið verið skrifað um þetta á íslensku en vert er að benda á grein eftir Berg Sigurðsson og Einar Þorleifsson sem birtist í Fréttablaðinu árið 2010. Þar taka þeir saman ýmsar staðreyndir um áliðnaðinn, setja í alþjóðlegt samhengi og segja meðal annars:

Ál er m.a. notað í óumhverfisvænar umbúðir, t.d. áldósir og álpappír, sem ættu að vera með öllu óþarfar. Talið er að allt að 30% álsins séu notuð í hergagnaframleiðslu en afar erfitt er að finna tölulegar upplýsingar um þau mál. Álduft er þar notað sem sprengiefni í hitasprengjum (þ.e. thermobaric bombs) sem losa gríðarlegan varma. 

Grænn málmur segir Bjarni. Iss piss, hergagnaframleiðsla, eitthvað ofan á brauð.

Áfram með smjörið:

Ísland hefur ekki efni á afturhaldssamri orkunýtingarstefnu.

Af samhenginu að dæma virðist Bjarni eiga hér við að Ísland hafi ekki efni á því að halda aftur af virkjanaframkvæmdum í þágu umhverfisverndar. Hvernig lýsir maður svona hugsunarhætti? Þjóðhverfur þankagangur? Veruleikafirring? Græðgi?

Ef Ísland, eitt ríkasta land í heimi, hefur ekki efni á því að sporna gegn loftslagsbreytingunum sem eru að rústa vistkerfi jarðarinnar, hvaða þjóð má þá við því? Hér talar formaður eins stærsta stjórnmálaflokks á Íslandi eins og hann líti á umhverfisvernd sem einhvers konar lúxus sem sé bara í boði á meðan góðæri ríkir. Þegar litið er yfir 18 ára stjórnartíð Sjálfstæðisflokksins má hins vegar ljóst vera að það skiptir engu máli hvort það er góðæri eða kreppa; það er alltaf pláss fyrir eina virkjun í viðbót.


Getur hugsast að Bjarni Benediktsson sé ósammála þeim 97% loftslagsvísindamanna sem telja að loftslagsbreytingarnar séu af manna völdum? Varla er hann svo mikill repúblikani. Sýnum Bjarna þá sanngirni að gera ráð fyrir því að hann átti sig á loftslagsvandanum. En þá kemur upp önnur spurning: Dettur honum ekkert í hug að við Íslendingar höfum einhverjum skyldum að gegna við plánetuna og vistkerfið okkar? Erum við bara stikkfrí vegna þess að hér varð efnahagshrun?

Loftslagsbreytingar eru ekkert grín. Og fátt er ömurlegra en veruleikafirrtir pólitíkusar sem horfast ekki í augu við vandann. Taka skammtímahagvöxt fram yfir möguleika afkomenda okkar til mannsæmandi lífs á jörðinni. Það er þó jákvætt að Bjarni skuli hafa talað svona afdráttarlaust. Nú vitum við upp á hár á hverju við eigum von ef Sjálfstæðisflokkurinn kemst aftur til valda.


Það þarf stundum útlendinga til að koma vitinu fyrir Íslendinga. Þetta verk er eftir listamanninn Jonathan Woods og heitir Iceland Can. Það myndi sóma sér vel uppi á vegg hjá Bjarna Benediktssyni.

Uppfært 24. september: Glöggur lesandi benti Alþingisvaktinni á að ófáar greinar hafa verið skrifaðar um álframleiðslu og báxít á íslensku. Hafa margar þeirra birst á vefsvæði Saving Iceland:

http://www.savingiceland.org/is/2011/05/suralsslys-a-indlandi-vedanta-enn-a-ferd/
http://www.savingiceland.org/is/2011/04/glaepaferill-rio-tinto-alcan/
http://www.savingiceland.org/is/2010/11/%E2%80%9Esaga-kapitalismans-er-vordud-med-ofbeldi%E2%80%9C-%E2%80%93-vidtal-vid-samarendra-das/
http://www.savingiceland.org/is/2010/10/frumvinnsla/
http://www.savingiceland.org/is/2010/08/samviska-heimsins-%E2%80%93-vi%C3%B0tal-vi%C3%B0-samarendra-das/
http://www.savingiceland.org/is/2010/07/%C3%BEjaningar-%C3%BEeirra-lagt-settu-og-samsekt-okkar/
http://www.savingiceland.org/is/2009/11/er-verkaly%C3%B0sbaratta-bara-v%C3%A6l/
http://www.savingiceland.org/is/2009/09/natturuvernd-er-ekki-velmegunarpolitik/
http://www.savingiceland.org/is/2008/08/imyndarleikur-ali%C3%B0na%C3%B0arins/
http://www.savingiceland.org/is/2008/07/alframlei%C3%B0slan-i-hnattr%C3%A6nu-samhengi/

Von er á öðrum pistli um frammistöðu Bjarna Benediktssonar í Harmageddon. Allir þeir sem vilja fylgjast með Alþingisvaktinni eru eindregið hvattir til að læka hana á Facebook (sjá hér til hægri). Þannig má stækka lesendahópinn.

Mannvitsbrekkan Tryggvi

Tryggvi Þór Herbertsson ætlar að sækjast eftir endurkjöri á Alþingi. Sögusagnir herma að hann sé fjármálaráðherraefni Sjálfstæðisflokksins – enda doktor í hagfræði. Það er nokkuð áhyggjuefni, því þrátt fyrir doktorsgráðuna kann hann ekki að reikna einföldustu hagfræðidæmi og virðist ekki vita hvernig þrepaskipt skattkerfi virkar.

Svo virðist sem Tryggvi þurfi á endurmenntun að halda. Hagfræðikunnátta hans er ekki aðeins aðhlátursefni á Íslandi heldur hefur hróður hans borist víða um heim með kvikmyndinni Inside Job, sem fjallar um fjármálahrunið. Þar eru Tryggvi og bandaríski prófessorinn Frederic Mishkin teknir á beinið fyrir furðulega skýrslu þeirra um íslenskt efnahagslíf árið 2006 sem þeir fengu 15 milljónir króna fyrir. Boðskapur skýrslunnar var sá að hér væri allt í stakasta lagi – sem er hlægilegt þegar litið er til þeirra vísbendinga sem hrúgast höfðu upp á þessum tíma um að allt væri að fara til fjandans.

Hér má sjá umfjöllun kvikmyndarinnar um Mishkin og Ísland:

 

Alþingisvaktin hefur áður fjallað um kaldar kveðjur Tryggva Þórs til Norðmanna í tengslum við fjöldamorðin þar í landi. Þá hefur einnig verið fjallað um það hvernig hann talaði á skjön við sjálfan sig um málefni tengd ríkisábyrgð bankanna.

Nú skulum við rifja upp nokkur skemmtileg gullkorn sem hrotið hafa af vörum Tryggva:

„Það á tvímálalaust að fjárfesta í fyrirtækjum sem starfa eftir lögum og reglum ef þau eru góðir fjárfestingarkostir, sama hvort þau framleiða vopn, tóbak eða barnableyjur,“  sagði Tryggvi um þá ákvörðun lífeyrissjóðanna að taka upp siðferðislegar viðmiðanir við val á fjárfestingavalkostum. Hugmyndafræði Tryggva leyfir ekki slíkar hindranir; markaðurinn er heilagur, laissez faire!

„Það verður ekki fyrr en uppgjör og afskriftir ársins líta dagsins ljós sem menn fara að slaka á og þá fyrst mun lausafé aukast á ný og fjármálakerfið leita í eðlilegra horf,“ sagði hann sem forstjóri Askar Capital í janúar 2008. Þetta ár tapaði Askar Capital 12,4 milljörðum. Brilljant árangur.

„Við hægrimenn trúum að eignarréttur sé einn af stólpum vestræns samfélags á meðan sumir vinstri menn segja að sameign sé mun betri. Við sáum af reynslunni í Sovétríkjunum og Austur-Þýskaland að sameign gengur ekki upp,“ – um einkavæðingu á vatni. Tryggvi þurfti að teygja sig alla leið til Sovétríkjanna til að réttlæta hana.

„Ég veit ekki alveg hvaða hagsmunaárekstrar hefðu getað orðið“ – sagði Tryggvi um það að hafa þegið ríflega 16 milljónir króna frá Askar Capital á meðan hann var efnahagsráðgjafi ríkisstjórnarinnar. Tryggvi þáði þrjátíufalt mánaðarkaup sitt frá fjárfestingabanka án þess að sjá neina hagsmunaárekstra við það. Sjálfstæðismenn boða markaðsfrelsi að nafninu til. En menn eins og Tryggvi Þór eru alltof innviklaðir í viðskiptalífið til að þeim sé treystandi til að tryggja eðlilega samkeppni (sem er nótabene grundvöllur þess að markaðsfrelsið sé neytendum til hagsbóta).

„Hvernig nennirðu að elta ólar við þennan rugludall Hannes? Hetjan mígur í öll vatnsból sem hann rekst á – sannkallaður brunnmígur,“ skrifaði Tryggvi Þór við athugasemd Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar á bloggsíðu Teits Atlasonar. Málefnalegur og sómakær þingmaður hann Tryggvi.


Á íslensku wikipediusíðunni er vönduð grein um Tryggva Þór. Þar er aðkomu hans að blóðmjólkun bótasjóðs Sjóvár lýst á þessa leið:

Askar Capital höfðu umsjón með fjárfestingaverkefnum fyrir Sjóvá og Milestone. Verðmæti verkefnanna hljóp á hundruðum milljarða króna og voru meðal annars bótasjóðir Sjóvár notaðir til að fjármagna verkefninin. Eftir að upp komst um notkun bótasjóðanna gerði embætti sérstaks saksóknara húsleit í höfuðstöðvum Sjóvár, í höfuðstöðvum Milestone, á heimilum allra fyrrverandi stjórnarmanna og á heimili Þórs Sigfússonar, fyrrverandi forstjóra Sjóvár.

Var það gert í tilefni rannsóknar á stórfelldu fjármálamisferli sem tengist starfsemi Milestone og Sjóvár. Rannsóknin snerist meðal annars að meintri misnotkun á bótasjóði Sjóvár en um sjóðinn gilda strangar reglur hvað varðar not á fé úr honum til fjárfestinga.

Tryggvi Þór kveðst hafa vitað að bótasjóðir væru notaðir í fjárfestingarnar. Hann hafi gert sér fullkomlega grein fyrir því að verið væri að kaupa eignir inn í bótasjóðina, fjárfest hefði verið í ýmsu með slíkum sjóðum. Aftur á móti telur hann að notkun bótasjóðanna til fjárfestingar hafi verið lögleg.

Svo fór þó að fjárfestingar fyrir fjármuni bótasjóðsins enduðu illa og árið 2008 var eignastaða Sjóvá var orðin það slæm að félagið átti ekki fyrir vátryggingaskuld sinni en það eru þeir fjármunir sem tryggingafélag skuldar viðskiptavinum sínum vegna greiddra iðgjalda, svonefndur bótasjóður. Á endanum þurfti íslenska ríkið að lána Sjóvá um 12 milljarða króna af fé skattgreiðenda sumarið 2009 svo það uppfyllti skilyrði um gjaldþol og gæti staðið við vátryggingaskuldbindingar sínar.

Það er sorglegt að Tryggvi Þór Herbertsson sé á meðal þeirra sem fara með löggjafarvaldið á Íslandi. Alþingisvaktin hvetur Tryggva eindregið til að leggja þingstörfin á hilluna og skella sér í endurmenntun.

Allir þeir sem vilja fylgjast með Alþingisvaktinni eru eindregið hvattir til að læka hana á Facebook (sjá hér til hægri). Þannig má stækka lesendahópinn.

Brandarinn er búinn, Vigdís

Þegar Vigdís Hauksdóttir, þingkona Framsóknarflokksins tjáir sig talar hún eins og 12 ára barn. Fyrst var þetta fyndið en nú er þetta orðið eins og margsagður og leiðinlegur brandari.

Tökum smá upprifjun.

Hvað hafði Vigdís Hauksdóttir að segja um iðnaðarsaltsmálið, þegar Matvælastofnun stóð Ölgerðina að verki við að setja svokallað iðnaðarsalt í gosdrykki?


Það var og. Vigdís ber afar mikla virðingu fyrir hefðum og venjum, sérstaklega þeim er tengjast forseta lýðveldisins. Hvílíkt hneyksli að fjölmiðlar dirfist að fjalla um hefðirnar og kostnað þeirra:

og aftur:


Ferlegt mál. Kratasamsæri gegn forsetanum. Venjulega er talað um handhafa forsetavalds, ekki handhafa forseta (enginn er látinn halda á forsetanum) – en ekki er óalgengt að Vigdís fari frjálslega með tungumálið og finni upp ný orðasambönd.

 

Vigdís er pirripú á krötum og fjölmiðlum. En hvað finnst henni um háskólafólk sem tekur þátt í þjóðmálaumræðunni?


Þetta eru merkileg sjónarmið. Í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis eru fræðimenn sérstaklega hvattir til að taka aukinn þátt í umræðunni. Skilaboð Vigdísar til þeirra eru hins vegar þessi: Ef þið dirfist að hallmæla Framsóknarflokknum þá ætti að vísa ykkur úr starfi.

Hér er nýlegur status frá Vigdísi:


Í fyrsta lagi eru hér þrjár stafsetningarvillur. Róbert heitir Róbert Marshall, í orðinu dómkirkja er aðeins eitt r og Siðmennt er sérnafn með stórum staf. Þá ber að nefna að rangt er að tala um að guma sig af einhverju. Hins vegar er vel hægt að guma af einhverju. Ekkert afturbeygt fornafn kemur þarna á eftir.

Í öðru lagi er boðskapur þessa Facebook-statuss gjörsamlega fráleitur. Alþingisvaktin fagnar því innilega að þingmenn neiti að sitja undir ljótum kristilegum boðskap í boði ríkiskirkju sem um árabil hefur staðið í vegi fyrir mannréttindum á Íslandi. Og með fullri viðingu fyrir Siðmennt þá er hið besta mál að skella sér á kaffihús í stað þess að hlusta á hugvekju um heilbrigði þjóðar.

En nei. Vigdísi varð ekki um sel. Og hún útskýrði hvers vegna í útvarpsþættinum Harmageddon í gær. Alþingisvaktin ræður fólki frá því að hlusta á viðtalið í heild, sálarlífsins vegna. En af því sem hún sagði ber eftirfarandi hæst.

„Ég vona að þið hafið báðir fermst strákar. Er það ekki?“ Hún sagði þetta í alvörunni.

Þegar þáttastjórnendur minntust á kvenfyrirlitningu og hommahatur í Biblíunni svaraði Vigdís þeim eins og sönn teboðsdrottning: „Mér finnst þú frekar vera að lesa upp úr trúarriti múslima.“ Það er ekki að ástæðulausu sem gárungarnir hafa kallað Vigdísi Hauksdóttur Söruh Palin Íslands.

Kristindóminum til varnar benti Vigdís á að „við höldum jól á Íslandi.“ Alþingisvaktin hvetur Vigdísi til að lesa bókina Saga daganna eftir Árna Björnsson, þjóðfræðing.

Já, og svo sló botninn úr tunnunni: „Við verðum að standa vörð um grunngildi okkar, Þjóðkirkjuna, þjóðtunguna, náttúruauðlindirnar,“ sagði Vigdís Hauksdóttir, konan sem er þjóðþekkt fyrir að misþyrma íslenskri tungu. Og vel á minnst tilheyrir hún flokki sem hefur sérstaklega lagt sig fram við að blóðmjólka íslenskar náttúruauðlindir.

Ástandið hlýtur að vera svart fyrir Vigdísi. En sem betur fer á hún nóg af ljósaperum. Og rasshausar Íslands, smáfuglarnir á amx.is, völdu hana þingkonu ársins 2009:

Fyrst var þetta gott grín. En nú er brandarinn löngu hættur að vera fyndinn.

Kæra Vigdís. Gerðu þjóð þinni greiða og finndu þér annan starfsvettvang.

Allir þeir sem vilja fylgjast með Alþingisvaktinni eru eindregið hvattir til að læka hana á Facebook (sjá hér til hægri). Þannig má stækka lesendahópinn.

Tvísaga Tryggvi

Í ljósi þess að Tryggvi Þór Herbertsson hefur verið sæmdur titlinum hræsnari vikunnar er vert að rifja upp fleiri dæmi um hræsni þingmannsins.

Þann 8. október 2008 kom Tryggvi fram í viðtali á BBC sem efnahagsráðgjafi forsætisráðherra þar sem hann fullyrti að íslenska ríkið myndi ábyrgjast innistæður erlendra kröfuhafa í íslensku bönkunum

Spyrill: Já, en svo ég endurtaki spurninguna, ef einn [bankanna] lenti í vandræðum þrátt fyrir það sem þú sagðir, hefðuð þið efni á að bjarga honum?
Tryggvi Þór: Alveg örugglega, við myndum koma bankanum til bjargar, alveg örugglega.

Spyrill: Fullt af fólki í Bretlandi eru með sparnað í þessum tveimur bönkum, Landsbankanum og Kaupþingi. Er peningurinn þeirra öruggur?
Tryggvi Þór: Já, samkvæmt minni vitneskju er Ísland hluti af Evróputilskipun um innistæðutryggingar, þannig að já, svo ætti að vera.

Rúmlega ári síðar virtist hann alveg búinn að skipta um skoðun í ræðu sem hann hélt á Alþingi og sagði meðal annars:

Evrópusambandið [setti] tilskipun um hvernig innlánstryggingum ætti að vera háttað á svæðinu. Hún gengur í stuttu máli út á það að öll aðildarlöndin, hvert og eitt, eiga að vera með innlánstryggingarsjóð og það er kveðið á um hvernig útlitið á þeim sjóði eigi að vera en það er ekki kveðið á um að það sé ríkisábyrgð á sjóðnum. Það hefur verið seinni tíma túlkun hjá Evrópusambandinu að þar sé um einhvers konar ríkisábyrgð að ræða og Íslendingar hafa ávallt hafnað því en þrátt fyrir það gengist undir það að ganga frá þessu máli þannig að Íslendingar taki ábyrgð á innlánstryggingarsjóðnum á sig.

Af nógu er að taka þegar Tryggvi Þór Herbertsson á í hlut og mun hann eflaust koma oft og mörgum sinnum við sögu á Alþingisvaktinni.

Vigdísarhóf


Alþingisvaktin hvetur alla til að mæta til Vigdísarveislu. Heimildir okkar herma að þar verði malbiki kastað úr fjárhúsi.

 

Hræsnari vikunnar: Tryggvi Þór Herbertsson


Finnst engum athugavert að safna börnum og unglingum kerfisbundið saman á afskekktri eyju í þeim tilgangi að innræta þeim tiltekna flokkspólitíska stjórnmálaskoðun???

Þetta skrifaði Tryggvi Þór Herbertsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, á Facebook-síðu sína sama dag og Anders Behring Breivik var dæmdur í lífstíðarfangelsi fyrir fjöldamorðin í Noregi. Ummæli Tryggva eru ósmekkleg, ekki síst vegna tímasetningarinnar. Illugi Jökulsson gerir þessu góð skil á vefsíðu sinni:

Að nefna þetta í gær var eins og ef dauðadrukkinn ökufantur hefði keyrt niður barnið mitt á götuhorni og svo hefði Tryggvi Þór mætt í sjálfa erfidrykkjuna og klöngrast þar upp á stól síðla kvölds og heimtað að fá að halda ræðu: „Bölvuð fyllibyttan. En finnst engum athugavert að krakkanum skuli hafa verið hleypt út í stórhættulega umferðina?“

Bjánaskapurinn blasir við. Og kannski er hræsnin líka flestum augljós. Tryggvi tilheyrir jú stjórnmálaafli sem er þekkt fyrir að smala saman ungmennum og gefa þeim bjór til að afla fylgis.

Það hlægilega er þó að Tryggvi hefur tekið beinan þátt í stjórnmálaskóla fyrir ungt fólk. Hann og Kristján Þór Júlíusson, þingmaður sama flokks, settu stjórnmálaskóla Sjálfstæðisflokksins á Akureyri þann 27. febrúar síðastliðinn. Þar voru haldin námskeið fyrir börn og unglinga, meðal annars undir yfirskriftinni „Grunngildi sjálfstæðisstefnunnar“ og „Saga Sjálfstæðisflokksins“.

Eiga menn eins og Tryggvi Þór Herbertsson heima á Alþingi Íslendinga?