Alþingisvaktin

Bless Ásbjörn :’-(

Nú líður senn að kveðjustund. Ásbjörn Óttarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, hefur ákveðið að gefa ekki kost á sér til frekari starfa á Alþingi. Það verður mikill missir af Ásbirni og í tilefni þessara frétta er gráupplagt að glugga aðeins í afrekaskrá hans.

Lögbrot (óvart)
Árið 2008 greiddi hann sér arð upp á 65 milljónir króna út úr útgerðarfélaginu Nesver sem er í eigu Ásbjörns og fjölskyldu hans. Eiginfjárstaða fyrirtækisins var neikvæð á þessum tíma og því arðgreiðslan ólögleg. Eftir að málið komst í fjölmiðla sagðist Ásbjörn hafa greitt sér arðinn fyrir mistök og endurgreitt peningana. Bjarna Ben var slétt sama.

Hagsmunagæsla
Ásbjörn er enn framkvæmdastjóri og eigandi útgerðarfyrirtækisins. Hann hefur tekið virkan þátt í umræðum um kvótakerfið á þingi og barist hatrammlega gegn öllum breytingum á því þótt augljóst sé að hann hefur fjárhagslegra hagsmuna að gæta.

Einkavæðing á vatni
Ásbjörn hefur verið forseti bæjarstjórnar Snæfellsnesbæjar um árabil. Árið 2009 samþykkti hann samning um sölu vatnsréttinda á Snæfellsnesi til 95 ára. Vatnsréttindin fékk fyrirtæki sem teygir anga sína til Hollendingsins Otto Spork, en þegar samningurinn var gerður voru viðskipti hans til rannsóknar hjá kanadíska fjármálaeftirlitinu vegna gruns um stórfellt fjármálamisferli. Ásbjörn hefur verið þögull sem gröfin um innihald samningsins og aðspurður sagðist hann ekki muna hvað í honum stæði.

Fokkjú listamenn – áfram Nesver!
Þótt átakanlegt sé að kveðja Ásbjörn Óttarsson verður að líta á björtu hliðarnar. Ásbjörn ætlar nú að einbeita sér óskiptur að Nesveri! Hann segir skilið við ríkisspenann og fer að „vinna eðlilega vinnu eins og eðlilegt fólk.“ Bless Ásbjörn. Megi Nesver vaxa og dafna sem aldrei fyrr. Fokk jú listamenn, áfram verðmætasköpun!

Allir þeir sem vilja fylgjast með Alþingisvaktinni eru eindregið hvattir til að læka hana á Facebook (sjá hér til hægri). Þannig má stækka lesendahópinn.

Björt eða óljós framtíð?

Guðmundur Steingrímsson er pólitískur flökkumaður. Fyrst var hann í Samfylkingunni, svo prófaði hann Framsókn og nú hefur hann stofnað Bjarta framtíð. Leitun er að stjórnmálaflokki sem heitir jafn hallærislegu nafni.

Björt framtíð sendi út ályktun í dag þar sem stefnumál flokksins eru kunngerð. Þetta lítur svo sem ágætlega út á pappír; þarna eru nefnd ýmis þjóðþrifaverk sem gott væri að ná í gegn. Hins vegar er erfitt að skilja hvers vegna það þurfti að stofna nýjan flokk til að berjast fyrir þeim. Í grunninn er stefna Bjartrar framtíðar sósíaldemókratísk og keimlík stefnu Samfylkingarinnar og Vinstri grænna. Kannski er skýringin sú að Guðmundur og félagar vilja ráða því hverjir eru í framvarðasveit flokksins. Erfitt er að sjá að jafnaðarstefnunni sé unnið mikið gagn með enn einu framboðinu.


Í ályktuninni er ósköp fátt sagt um skuldamál og skattamál. Hvergi er fjallað um afstöðu flokksins til kirkjuskipunar og aðildar að Atlantshafsbandalaginu. Peninga- og gjaldmiðlamál eru afgreidd með nokkrum pennastrikum.

Svo virðist sem flokksmenn Bjartrar framtíðar byggi framtíðaráform flokksins á þeirri von að Ísland gangi í Evrópusambandið. Samt sem áður benda skoðanakannanir til þess að aðildarsamningi verði hafnað með afgerandi hætti í þjóðaratkvæðagreiðslu. Mun Björt framtíð leggja upp laupana ef svo fer?

Ótal spurningum er ósvarað. En það vantar svo sannarlega ekki húmorinn hjá Bjartri framtíð: „Almennt ríki minna vesen. Ísland vinni Eurovision.“ Hohoho!

Lúðalegasta kjördæmapot í heimi


Þingmenn Suðurkjördæmis hafa sterkar skoðanir á því hvernig á að reka fjölmiðla. Helst vilja þeir fá að sjá um mannaráðningar á RÚV. Í gær sendu þeir sameiginlegt bréf til Páls Magnússonar, útvarpsstjóra og Óðins Jónssonar, fréttastjóra RÚV þar sem þeir lýstu óánægju sinni með uppsögn Magnúsar Hlyns Hreiðarssonar sem sinnt hefur starfi fréttaritara RÚV á Suðurlandi um árabil.

Alþingisvaktin veit ekki alveg hvort hún á að hlæja eða gráta. Þetta er ósköp saklaust svo sem, en ætli þetta sé ekki eitthvert aumasta og lúðalegasta kjördæmapot allra tíma? Eftirtaldir þingmenn eiga heiðurinn:


Kannski væri bara skemmtilegra að búa á Íslandi ef þingmenn Suðurkjördæmis fengju að stjórna rekstri Ríkisútvarpsins eins og hann leggur sig.

Björgvin G. Sigurðsson, fyrrverandi viðskiptaráðherra sem var skilinn út undan þegar rætt var um viðskiptamál, gæti tekið við stöðu fréttastjóra. Þannig gæti hann skrifað sögu hrunsins upp á nýtt.


Árni Johnsen, sérfræðingur í meðferð almannafjár og sérlegur baráttumaður gegn ástaratlotum samkynhneigðra, gæti tekið við af Páli Magnússyni sem útvarpsstjóri. Á gamlárskvöld gæti hann sungið eins og honum einum er lagið og flutt hjartnæm ávörp um kynferðislegt ofbeldi vinstristjórnarinnar á sjávarútveginum.


Allir þeir sem vilja fylgjast með Alþingisvaktinni eru eindregið hvattir til að læka hana á Facebook (sjá hér til hægri). Þannig má stækka lesendahópinn til muna, enda hefur hvert einasta læk margföldunaráhrif.

Sjalladrama í Tampa?


Ragnheiður Elín Árnadóttir og Bjarni Benediktsson erum komin heim, endurnærð eftir að hafa drukkið úr viskubrunni repúblikana í Tampa-borg.

Repúblikanaflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn eiga ýmislegt sameiginlegt. Þeir aðhyllast báðir árásargjarna utanríkisstefnu. Báðir flokkarnir láta sig litlu varða um réttindi og lífskjör Palestínumanna. Og áherslurnar í skattamálum eru keimlíkar hjá þeim: lágtekjufólk skal borga brúsann. Þangað á að varpa skattbyrðinni svo hlífa megi ríku og duglegu einstaklingunum.

Repúblikanar hafa eflaust getað kennt sjálfstæðismönnum ýmislegt um það hvernig á að heyja stríð gegn konum. Og þeir hafa líklega upplýst Bjarna um það að hugmyndin um loftslagsbreytingar af manna völdum er eitt risastórt samsæri vinstrimanna til að lama atvinnulífið. Boðskapur Repúblikanaflokksins á sviði umhverfismála ætti að hvetja sjálfstæðismenn til dáða hvað varðar stóriðju og olíuborun.

Ragnheiður Elín var á ráðstefnunni í umboði Sambands evrópskra íhalds- og umbótasinna. Það er býsna þversagnakennt nafn á samtökum. Félagar sambandsins fræddu víst fundargesti um hætturnar af Evrópuvæðingu Bandaríkjanna, sem felst í heilbrigðisumbótum Barack Obama.

Mikið hlýtur lágstéttarfólk vestanhafs að vera þakklátt Ragnheiði, íslenskri kjarnakonu sem leggur lóð sín á vogarskálarnar í baráttu gegn auknu aðgengi almennings að heilbrigðisþjónustu. Ætli Ragnheiður verði samkvæm sjálfri og sér og taki upp sömu baráttumál hér á landi þegar Alþingi kemur saman á ný?

Það mun hún ekki geta gert sem þingflokksformaður því stuttu eftir að hún lenti á Íslandi var ákveðið að hún skyldi víkja fyrir Illuga Gunnarssyni, fyrrverandi stjórnarmanni Sjóðs 9 sem ríkið lagði til 11 milljarða í hruninu.


Svo virðist sem Bjarni Benediktsson hafi stutt Illuga og gert það að sínu fyrsta verki eftir Tampa-förina að hrekja Ragnheiði úr sæti þingflokksformanns.

Hvað kemur til? Hvað gerðist í Tampa? Röð atburða kemur ímyndunaraflinu svo sannarlega á flug.

Allir þeir sem vilja fylgjast með Alþingisvaktinni eru eindregið hvattir til að læka hana á Facebook (sjá hér til hægri). Þannig má stækka lesendahópinn.

Hernaðarsinnarnir í Samfylkingunni

Samfylkingarmenn eru afar umburðarlyndir gagnvart hernaði. Sumir eru jafnvel svo umburðarlyndir að þeim finnst bara dónalegt að kalla hernað hernað. Árni Páll Árnason, þingmaður Samfylkingarinnar setti fram nýstárlega söguskýringu á Beinni línu hjá DV um daginn:


Þökk sé dyggum stuðningi Samfylkingarinnar við aðild að Atlantshafsbandalaginu er Ísland einn af ábyrgðaraðilum loftárásanna í Líbíu sem urðu um það bil 1100 almennum borgurum að bana. Að því leytinu til komust stjórnarherir Gaddafis ekki með tærnar þar sem NATO-ríkin höfðu hælana. Það er svo kaldhæðni örlaganna að samverkamaður Blair og Bush í Íraksstríðinu, Davíð Oddsson, skyldi fárast yfir þessu.


Kristján Möller, þingmaður Samfylkingarinnar, gengur lengra en ýmsir flokksbræður hans og vill ekki aðeins styðja hernaðinn í orði heldur einnig á borði. Eftir að hafa kannað málefni hernaðarfyrirtækisins ECA Program „mjög vel“ ákvað hann að gera það sem í hans valdi stóð til að tryggja fyrirtækinu aðstöðu á Keflavíkurflugvelli.

Kristján er ekki sérstaklega góður könnuður. Kannski þyrfti hann að fá sér ný gleraugu. Kannski er smásjáin í samgönguráðuneytinu eitthvað biluð. Því nú hefur komið í ljós að ECA Program er ekki bara subbulegt stríðsgróðakompaní heldur pjúra ponzi-svindl.

Slær Ögmundur Jónasson Íslandsmetið?

Image

Hrunverjinn Ögmundur Jónasson má þola fúkyrðaflaum þessa dagana eftir að kærunefnd jafnréttismála kvað upp þann dóm að hann hefði brotið jafnréttislög. Málinu hefur verið líkt við ráðningu Jóns Steinars Gunnlaugssonar í ráðherratíð Björns Bjarnasonar en færð hafa verið nokkuð sannfærandi rök gegn slíkum samanburði. Ljóst er hins vegar að viðbrögð Ögmundar við dóminum einkennast ekki af neinni sérstakri auðmýkt.

Skorað hefur verið óbeint á Ögmund að segja af sér. Hann hefur ekki gerst líklegur til að taka áskoruninni en hafa ber í huga að Ögmundur er ólíkindatól. Fari svo að Ögmundur slái til verður hann fyrstur Íslendinga til að segja af sér tveimur mismunandi ráðherraembættum. Þannig gæti Ögmundur tryggt sér sess í sögubókunum.

Bjarni Benediktsson á landsþingi Repúblikanaflokksins


Það er ekki aðeins þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, Ragnheiður Elín Árnadóttir, sem er stödd á landsþingi Repúblikanaflokksins í Tampa. Þar er einnig formaðurinn sjálfur, Bjarni Benediktsson sem lætur sig dreyma um forsætisráðherrastólinn þessa dagana. Samkvæmt Fréttablaðinu er Hermann Guðmundsson, fyrrverandi forstjóri N1 með í för.

Þetta vekur upp ófáar spurningar. Finna forsprakkar Sjálfstæðisflokksins samhljóm með Repúblikanaflokknum? Ætla þeir að draga lærdóm af Romney og Ryan?

Ef svo er má ætla að Bjarni Benediktsson og Ragnheiður Elín Árnadóttir mæti galvösk heim til Íslands og berjist af krafti gegn fóstureyðingum, réttindum samkynhneigðra og valfrelsi kvenna.

Sjálfstæðisflokkurinn er vanur að fylgja Repúblikanaflokknum að málum þegar fjöldamorð í fjarlægum löndum eiga í hlut. Það verður spennandi að sjá hvort Repúblikönum tekst líka að sannfæra Bjarna og Ragnheiði um ágæti dauðarefsinga og almennrar byssueignar.

Á meðan Bjarni og Ragnheiður tralla í Tampa situr gamall uppgjafarráðherra límdur við tölvuskjá og gónir á myndbönd af landsþinginu. „Sjálfstæðisflokkurinn hefði gott af að tileinka sér, þótt ekki væri nema brot af þeim sóknarþunga sem einkenndi flokksþing repúblíkana í Tampa,“ skrifar Björn Bjarnason.

Hver verða viðbrögð frjálslyndra hægrimanna í Sjálfstæðisflokknum við aðdáun flokksforystunnar á stjórnmálaafli sem er leiðandi í baráttunni gegn mannréttindum í heiminum? Ætli óbreyttir flokksmenn kippi sér ekkert upp við það að Sjálfstæðisflokkurinn sé bendlaður við Repúblikanaflokkinn með þessum hætti?

Tvísaga Tryggvi

Í ljósi þess að Tryggvi Þór Herbertsson hefur verið sæmdur titlinum hræsnari vikunnar er vert að rifja upp fleiri dæmi um hræsni þingmannsins.

Þann 8. október 2008 kom Tryggvi fram í viðtali á BBC sem efnahagsráðgjafi forsætisráðherra þar sem hann fullyrti að íslenska ríkið myndi ábyrgjast innistæður erlendra kröfuhafa í íslensku bönkunum

Spyrill: Já, en svo ég endurtaki spurninguna, ef einn [bankanna] lenti í vandræðum þrátt fyrir það sem þú sagðir, hefðuð þið efni á að bjarga honum?
Tryggvi Þór: Alveg örugglega, við myndum koma bankanum til bjargar, alveg örugglega.

Spyrill: Fullt af fólki í Bretlandi eru með sparnað í þessum tveimur bönkum, Landsbankanum og Kaupþingi. Er peningurinn þeirra öruggur?
Tryggvi Þór: Já, samkvæmt minni vitneskju er Ísland hluti af Evróputilskipun um innistæðutryggingar, þannig að já, svo ætti að vera.

Rúmlega ári síðar virtist hann alveg búinn að skipta um skoðun í ræðu sem hann hélt á Alþingi og sagði meðal annars:

Evrópusambandið [setti] tilskipun um hvernig innlánstryggingum ætti að vera háttað á svæðinu. Hún gengur í stuttu máli út á það að öll aðildarlöndin, hvert og eitt, eiga að vera með innlánstryggingarsjóð og það er kveðið á um hvernig útlitið á þeim sjóði eigi að vera en það er ekki kveðið á um að það sé ríkisábyrgð á sjóðnum. Það hefur verið seinni tíma túlkun hjá Evrópusambandinu að þar sé um einhvers konar ríkisábyrgð að ræða og Íslendingar hafa ávallt hafnað því en þrátt fyrir það gengist undir það að ganga frá þessu máli þannig að Íslendingar taki ábyrgð á innlánstryggingarsjóðnum á sig.

Af nógu er að taka þegar Tryggvi Þór Herbertsson á í hlut og mun hann eflaust koma oft og mörgum sinnum við sögu á Alþingisvaktinni.

Getnaðarlegur Bjarni á alþýðuborði

Því verður varla neitað að Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, er harla kynþokkafullur á forsíðu Nýs lífs í dag. Með blik í augum mænir hann á hausttískuna og lætur sig dreyma um mjólkurföt, förðun og marokkóskar söngkonur.

En hið þráðbeina brosa Bjarna er sveipað ákveðinni dulúð.  Það er smá Mónu Lísu-bragur yfir því. Um hvað er hann að hugsa? Horfir hann glaðbeittur fram á veginn og hlakkar til að varpa skattbyrðinni yfir á lágtekjufólk, eins og gert var í 18 ára stjórnartíð Sjálfstæðisflokksins? Er Bjarni að velta því fyrir sér hvernig megi hlífa útgerðaraðlinum við veiðigjaldi ríkisstjórnarinnar?

Af hverju er forríkur Garðbæingur að halla sér makindalega aftur á gömlu, veðruðu smíðaborði sem myndi sóma sér betur í Góða hirðinum en á forsíðu eins víðlesnasta glanstímarits landsins?

Er þetta borðið sem Bjarni og flokksmenn hans ætla að slá endurskoðun stjórnarskrárinnar út af? Eða er þetta tilraun Bjarna til að setja allt upp á borðið?

Ótal spurningar vakna. Ætli Hreinn Loftsson, aðaleigandi Birtings (fyrrum trúnaðarmaður Sjálfstæðisflokksins, aðstoðarmaður Davíðs Oddsonar og formaður einkavæðingarnefndar) hafi fyrirgefið Bjarna símaötin og snúist á sveif með flokknum skömmu fyrir kosningar?

Ekki eru nema tvær vikur síðan Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir formaður Heimdallar prýddi forsíðu Vikunnar og því verður spennandi að sjá hvaða flokksgæðingur það verður næst sem brosir til kjósenda. Svo virðist sem gríðarleg eftirspurn sé eftir snoppufríðum Sjálfstæðismönnum framan á glanstímarit landsins.

Katrín kveður niður verðbólgudrauginn

Image

Forsvarsmenn framhaldsskólanna hafa tekið eftir eins konar verðbólgu í einkunnum grunnskólanema eftir að samræmdu prófin voru afnumin. Katrín Jakobsdóttir, menntamálaráðherra virðist ætla að bregðast við vandanum með því að skipta 1-10 skalanum út fyrir bókstafi.

Katrín veit líklegast að hægt er að halda verðbólgu í skefjum með því að taka upp stöðugri gjaldmiðil. Hins vegar er óvíst að hægt sé að beita sömu hagstjórnaraðferðum á einkunnir grunnskólanema.

Vera má að Katrín Jakobsdóttir sé undir áhrifum frá Lilju Mósesdóttur, sem stungið hefur upp á því að breyta nafninu á íslensku krónunni til að koma á stöðugleika.