Alþingisvaktin

Flokkur: Framsóknarflokkurinn

Þjóðremba Framsóknarflokksins

Þjóðremba er tvíeggja sverð í höndum stjórnmálamannsins. Með henni getur pólitíkusinn kitlað ákveðinn hóp fólks og sankað að sér kjánaatkvæðum. Aftur á móti leggst hún illa í flest sæmilega skynsamt fólk.

Með því að sveipa þjóðrembuna sakleysislegum klæðum má koma í veg fyrir að hún falli í grýttan jarðveg hjá almenningi. Þess vegna virkar krúttleg og dálítið hallærisleg þjóðremba best. Framsóknarflokkurinn hefur fullkomnað þessa list.

Screen shot 2013-01-27 at 7.42.51 PM

Framsóknarflokkurinn hefur verið í alvarlegri tilvistarkreppu síðustu áratugi. Eitt sinn hafði Framsóknarflokkurinn raunverulega hugsjón, samvinnustefnuna. Fyrir samvinnumönnum var ekkert ógeðfelldara en fjárglæframenn og braskarar. En samvinnuhugsjónin hafði visnað löngu áður en Sambandið leið undir lok. Fyrir vikið gátu framsóknarbroddarnir tæmt sjóði Samvinnutrygginga og sölsað undir sig aðrar eignir samvinnufélaganna. Meðan þær gripdeildir áttu sér stað gerðist Framsókn flokkur fjárglæframanna.

Einu sinni var framsókn líka bændaflokkur. Svo varð hann stóriðju- og spillingarflokkur.

Og nú virðist Framsókn ætla að hasla sér völl sem flokkur þjóðlegra gilda. Framsóknarmenn hafa áður daðrað við þjóðrembu og framámenn flokksins hafa þurft að svara fyrir rasisma eða kynþáttahyggju. Þjóðlegu gildin hafa því alltaf verið til staðar, en það er forvitnilegt að greina birtingarmyndir þjóðrembings framsóknarmanna á síðustu árum. Við getum nefnilega greint tvo ólíka þræði í þjóðrembingi framsóknarflokksins. Annar þráðurinn er talsvert ógeðfelldari en hinn þótt báðir séu hættulegir.

Árið 1995 var staðhæft á forsíðu Alþýðublaðsins að Guðni Ágústsson, fyrrverandi formaður flokksins ætti aðild að félaginu Norrænt mannkyn – félagi sem barðist fyrir því að flóttamenn og innflytjendur væru reknir úr landi.

Screen shot 2013-03-01 at 10.36.19 PM

Tveir formenn félagsins vottuðu skriflega að Guðni Ágústsson væri meðlimur félagsins en sjálfur hafnaði hann hvers kyns tengslum við rasistafélagið. Mál Guðna minnir óneitanlega á vandræði Todd Palin, eiginmanns Söruh Palin, sem var um árabil meðlimur í félagsskap róttækra þjóðernissinna í Alaska en neitaði því svo staðfastlega eftir að hann áttaði sig á því að aðild að öfgasamtökum væri vond fyrir stjórnmálaframa fjölskyldunnar.

Enn situr eftir sú spurning hvort formenn Norræns mannkyns hafi logið upp á Guðna Ágústsson eða hvort hann hafi séð pólitískum hag sínum best borgið með því að segjast aldrei hafa tilheyrt samtökunum. Lesendur geta sjálfir velt því fyrir sér hvort er líklegra. Hvað sem þessum virðingarmanni innan Framsóknarflokksins þykir um útlendinga þá liggur afstaða hans til samkynhneigðar fyrir.

Vandræði Guðna eru gott dæmi um vanda stjórnmálamanna sem langar að spila á strengi þjóðernishyggju en vilja um leið birtast almenningi sem skynsamir og yfirvegaðir.

Líkt og fyrr segir hefur Framsóknarflokkurinn undir stjórn Sigmundar Davíðs reynt að feta þetta einstigi með því að klæða þjóðernishyggjuna í kjánalega einlægan búning. Pastelliti og ungmennafélagshallæri.

Sigmundur Davíð er Íslandsmeistari í krúttlega hallærislegri þjóðerembu, ólíkt t.d. Ólafi Ragnari sem er yfirleitt svo yfirgengilegur í sinni þjóðrembu að flest sómakært fólk roðnar af skömm. Auðvitað hefur Alþingisvaktin ekkert á móti sláturáti Sigmundar:

Screen shot 2013-01-27 at 8.52.11 PM

Svo eru dólgslæti Sigmundar Davíðs, Gunnars Braga og Ásmundar Einars fyrir utan Íslenska barinn líka fyrirgefanleg.

Íslenski barinn er þekktur fyrir að bjóða upp á íslenskar afurðir af ýmsu tagi og þar á meðal íslenskan mjöð. Það er spurning hvort Sigmundur Davíð sé enn á umræddum kúr og hvort ákefðin við að komast inn á Íslenskan barinn hafi tengst einlægum áhuga hans á íslenskri fæðu.

Framsóknarflokkur Sigmundar hefur verið iðinn við svona sprell á undanförnum árum. Á flokksráðsfundi Framsóknarflokksins árið 2011 var t.d. haldin glímusýning og fánahylling. Jafnframt var nýtt slagorð flokksins kynnt til sögunnar: Ísland í vonanna birtu!

Eiríkur Bergmann Einarsson, stjórnmálafræðingur, gerði þetta að umtalsefni í Fréttatímanum og sagði flokkinn vera farinn að daðra við þjóðernisstefnu og „fasísk minni“. Þá brást þingkonan Vigdís Hauksdóttir ókvæða við og krafðist þess að Eiríkur yrði rekinn frá Háskólanum á Bifröst. Þessi viðbrögð – sem jöðruðu við að vera fasísk – staðfestu að einhverju leyti gagnrýni Eiríks. Það er svo önnur saga að ofsafengin viðbrögð Vigdísar voru ákveðinn fyrirboði teboðstaktanna sem sjálfstæðismenn hafa gerst sekir um að undanförnu.

Stundum hefur Sigmundur farið gjörsamlega yfir strikið. Meira að segja flokkssystkinum hans í Kópavogi varð nóg um þegar hann lagði fram fyrirspurn á Alþingi um hlut fólks sem er af erlendu bergi brotið í skipulagðri glæpastarfsemi. Skömmu áður hafði hann fullyrt í útvarpsviðtali að fjárfestingar innlendra fjármagnseigenda væru æskilegri en útlendra, því að þeir síðarnefndu sæktust fyrst og fremst eftir gróða sem flytja mætti úr landi.

Fyrirspurnir eða orðræða sem tengir saman glæpi og útlendinga og sjúkdóma og útlendinga eru til þess fallnar að auka á fordóma í samfélaginu og draga úr umburðarlyndi og samhug

sagði í ályktun framsóknarmanna í Kópavogi.

Málflutningur á borð við þann sem Sigmundur býður upp á er vatn á myllu þeirra sem hatast við útlendinga. Og þá komum við að enn einu dæminu; framsóknarþingmanni sem virðist leggja sig sérstaklega fram við að halda hlífiskildi yfir embættismanni sem níðir skóinn af hælisleitendum.

Kristín Völundardóttir, forstjóri Útlendingastofnunar, vakti nýlega hneykslan með því að dylgja um skjólstæðinga sína, hælisleitendur, og gefa í skyn að þeir lifðu sníkjulifnaði á Íslandi. Hún vísaði ekki í neitt máli sínu til stuðnings og viðurkenndi reyndar í sama viðtali að Útlendingastofnun væri of undirmönnuð til að geta sinnt rannsóknarstörfum.

Ögmundur Jónasson, innanríkisráðherra, gagnrýndi Kristínu kurteislega í kvöldfréttum RÚV og boðaði hana á fund vegna ummælanna. Þá stökk Sigurður Ingi Jóhannesson, þingmaður Framsóknarflokksins, upp á nef sér og kvartaði undan þöggun og „árásum ráðherra“.

Skömmu síðar stakk Vigdís Hauksdóttir upp á því á Alþingi að hælisleitendur yrðu látnir bera ökklabönd með GPS sendum. Þessum hugmyndum er svarað hressilega hér og í grein eftir sama höfund er sýnt fram á vanþekkingu Vigdísar á Dyflinnarreglugerð Evrópusambandsins. Vigdís hafði varla sleppt orðinu fyrr en þessi skopmynd fór á flug í netheimum:

Vigdís Hauksdóttir vill ekki aðeins að hælisleitendur gangi með ökklabönd, heldur vill hún líka að íslenska ríkið dragi úr útgjöldum til þróunarmála. Eins og staðan er núna renna aðeins 0,22% af þjóðarframleiðslu okkar til þróunarverkefna og að þessu leyti stöndum við samanburðarlöndum okkar langt að baki. Þetta finnst Vigdísi hins vegar óþarfa fjáraustur sem nauðsynlegt sé að skera niður:

Fólki hættir stundum til að fókusera um of á Vigdísi Hauksdóttur. Skiljanlega. Alþingisvaktin telur hins vegar að með því séum við að horfa fram hjá dýpra og alvarlegra vandamáli. Það er nefnilega ekki svo langt síðan Sigmundur Davíð fór mikinn á flokksþingi Framsóknarflokksins í þvaðri um sjálfstæðishetjurnar, þorskastríðin og kraftinn sem blundaði með íslensku þjóðinni.

Undir krúttlegri og pastellitaðri sviðakjammaþjóðernishyggju Sigmundar leynist nefnilega þjóðrembingur sem er mun varasamari. Og krúttlegt sláturátið dregur athygli okkar frá því að forystumenn flokksins hafa kerfisbundið slegið á strengi útlendingahaturs. Slíkt er stórhættulegt.

Þjóðrembuorðræðan virðist ekki hafa truflað kjósendur flokksins hingað til. Raunar mælist Framsóknarflokkurinn með metfylgi um þessar mundir. Á óvissutímum er ekki óalgengt að þjóðrembuflokkar sæki í sig veðrið.

Burtsókn í útrýmingarhættu

Það er í raun merkilegt að Framsóknarflokkurinn skuli ennþá vera til, að minnsta kosti ef litið er til viðvarandi fólksflótta úr flokknum á síðustu árum. Kjósendum fækkar jafnt og þétt.

Í fjölmennustu sveitarfélögum landsins hafa kjósendur áttað sig á því að „framsóknarstefnan“ grundvallast á lýðskrumi og tækifærismennsku en ekki „skynsemi og rökhyggju“, eins og formaður flokksins hefur staglast á að undanförnu.

Sést það glögglega þegar framsóknarmanna er leitað í sveitarstjórnum fjölmennustu sveitarfélaganna. Þá þarf svo sannarlega að píra augun.

 • 0 menn – Reykjavík
 • 1 maður – Kópavogur
 • 0 menn – Hafnarfjörður
 • 1 maður – Akureyri
 • 1 maður – Reykjanesbær
 • 0 menn – Garðabær
 • 0 menn – Mosfellsbær
 • 1 maður – Árborg
 • 0 menn – Seltjarnarnes
 • 0 menn – Vestmannaeyjar
 • Íbúar ofangreindra sveitarfélaga: Um 240 þúsund.
 • Bæjarfulltrúar Framsóknarflokksins samtals: Fjórir.

Margir framsóknarmenn hafa áttað sig á þessu. Þeirra á meðal er formaður flokksins, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, sem nýlega flúði úr Reykjavíkurkjördæmi norður í eitt síðasta vígi flokksins, Norðausturkjördæmi.

Formaðurinn berst til síðasta blóðdropa. Aðrir forystumenn átta sig á því í hrönnum að flokknum er ekki viðbjargandi. Fyrir skömmu tilkynnti hinn ungi og glæsilegi varaformaður, Birkir Jón Jónsson, að hann hygðist hætta afskiptum af stjórnmálum í bili. Stuttu síðar lýsti Siv Friðleifsdóttir, fyrrverandi ráðherra, því yfir að þingferill hennar væri á enda.

Ekki eru allir flokksmenn á eitt sáttir við þá spillingu og sérhagsmunagæslu sem einkennt hefur flokkinn í áranna rás. Einnig fer fyrir brjóstið á sumum að flokkurinn hafi nú haslað sér völl sem helsti þjóðernisflokkur landsins. 

Jafnvel hörðustu framsóknarmönnum er nóg boðið.

 • Einar Skúlason, fyrrum varaþingmaður, sagði sig úr Framsóknarflokknum vegna „þjóðernisíhaldssemi“ sem honum þótti ráða ríkjum. Einar sá er mörgum kunnur eftir að hafa leitt lista framsóknarmanna í Reykjavík vopnaður slagorðinu góða „Þú meinar Einar“.
 • Þráinn Bertelsson, núverandi þingmaður Vinstri grænna, sagði sig úr Framsóknarflokknum með þeim orðum að hann „aðhylltist ekki pólitík reykfylltra bakherbergja“. Vera má að reykfyllt bakherbergi hafi einnig farið illa í Siv Friðleifsdóttur sem reyndi ásamt öðrum framsóknarmönnum að banna reykingar á sínum tíma.
 • Pétur Gunnarsson, trúnaðarmaður Framsóknarflokksins til margra ára, flúði flokkinn eftirminnilegan hátt. Kunni hann illa við „hrægammakapítalisma“ flokkssystkina sinna.
 • Gísli Tryggvason, talsmaður neytenda, var gallharður framsóknarmaður þar til fyrir skömmu.
 • Bjarni Harðarson, tæknitröllið mikla og fyrrum þingmaður flokksins hröklaðist burt og er afskaplega feginn.
 • Guðmundur Steingrímsson, sonur fyrrverandi forsætisráðherra Framsóknarflokksins, sá sig knúinn til þess að halda á brott og stofna flokk með hallærislegasta nafn í heimi.

Svo mætti lengi áfram telja. Framsóknarmenn geta þó huggað sig við það að Jónína Benediktsdóttir og Frosti Sigurjónsson hafa slegist í hópinn. En á heildina litið virðist flokkurinn vera í útrýmingarhættu.

Framsóknarmenn sækja ekki fram lengur. Flestir sækja bara burt.

Kögunarbarn í klípu – Sigmundur játar sig sigraðan í Reykjavík

Framsóknarflokkurinn er í tilvistarkreppu. Einu sinni var hann bændaflokkur. Svo varð hann stóriðju- og spillingarflokkur. Nú virðist hann hins vegar standa fyrir fátt annað en lágkúru og bjánaskap.

Fylgi Framsóknarflokksins á höfuðborgarsvæðinu er í sögulegu lágmarki. Hefð hefur verið fyrir því innan flokksins að formaðurinn (að Guðna Ágústssyni undanskildum) bjóði sig fram í öðru af Reykjavíkurkjördæmunum. Ef marka má könnun Gallup frá því í vor er útlit fyrir því að flokkurinn nái ekki inn þingmanni í Reykjavíkurkjördæmi norður. Þetta setur bersýnilega strik í reikninginn hjá formanni flokksins, Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni sem sækir fylgi sitt þangað.

Sigmundur kallar ekki allt ömmu sína. Öll munum við eftir íslenska kúrnum og drengilegri framgöngu Sigmundar í stríðinu gegn aukakílóunum. Fyrir sama metnaðinum er hins vegar ekki að fara þegar kemur að því að auka fylgi Framsóknarflokksins á höfuðborgarsvæðinu. Til að bjarga eigin skinni ætlar Sigmundur að leita á náðir kjósenda í höfuðvígi Framsóknarflokksins, Norðausturkjördæmi. Þar liggur hins vegar rauðvínsunnandinn Höskuldur Þórhallsson á fleti fyrir.


Samkvæmt heimildum Alþingisvaktarinnar íhugaði Sigmundur að sækja fram í Suðurkjördæmi fyrir þingkosningarnar árið 2009. Flokksmenn réðu honum þó frá því og bauð hann sig fram í Reykjavík norður þar sem fylgið var og er hvað dræmast. Ótti Sigmundar um að hljóta ekki þingsæti var á rökum reistur því hann var næstsíðasti þingmaðurinn til að komast inn úr kjördæminu að jöfnunarsætum undanskildum.

Sigmundur vill að Höskuldur víki fyrir sér en Höskuldur lætur engan bilbug á sér finna. Stjórnmálaferill Sigmundar er í húfi – það er úti um hann ef Kögunarbarnið vinnur ekki Höskuld í baráttunni um fyrsta sætið.

Á meðan bræðravígin eiga sér stað sefur Ásmundur bóndi værum blundi.

Samsæriskenning framsóknarmanna

Gunnar Bragi Sveinsson, þingmaður Framsóknarflokksins hefur kvartað undan því að fjölmiðlar veiti honum ekki nægilega athygli. Í dag ætlar Alþingisvaktin að reyna að bæta úr því og fjalla um Gunnar og flokkssystkini hans.

Það er eflaust ýmislegt sem er óuppgert varðandi búsaáhaldabyltinguna. Það fyrsta sem kemur upp í hugann er groddalegt lögregluofbeldi sem tugir eða hundruðir mótmælenda ættu að geta borið vitni um. Aldrei var farið ofan í saumana á framferði lögreglunnar í desember 2008 og janúar 2009. Óskandi væri að þingmenn tækju sig til og krefðust slíkrar rannsóknar.

Þessa glæsilegu mynd tók Jóhannes Gunnar Skúlason.

Framsóknarmenn eru með hugann við annað. Nú, fjórum árum eftir búsáhaldabyltinguna, vaða þeir ennþá uppi með samsæriskenningar um að búsáhaldabyltingunni hafi verið miðstýrt. Gunnar Bragi gerir meira að segja því skóna að þingmenn hafi stofnað lífi lögreglumanna í hættu.

Þau Gunnar Bragi Sveinsson, Vigdís Hauksdóttir og Sigurður Ingi Jóhannsson hafa þrisvar sinnum lagt fram þingsályktunartillögu þess efnis að „framferði einstakra þingmanna í búsáhaldabyltingunni verði rannsakað og það kannað hvort þeir kunni að hafa bakað sér refsiábyrgð.“ Ef Gunnar Bragi, Vigdís og Sigurður Ingi telja í alvörunni ástæðu til að ætla að þingmenn hafi brotið lög, af hverju kæra þau þá ekki þingmennina? Hvaða grín eru þessar þingsályktunartillögur?

Samsæriskenning framsóknarmanna byggir á því að einhverjir þingmenn hafi sést horfa út um glugga á þinghúsinu og tala í síma á meðan mótmæli áttu sér stað fyrir utan. Þetta er auðvitað grátbroslegt. Kannski gott dæmi um þá rökhyggju Framsóknarflokksins sem Sigmundi Davíð er tíðrætt um þessa dagana.

Samsæriskenning framsóknarmanna afhjúpar þá. Þeir vita ekkert um búsáhaldabyltinguna. Þeir skilja ekki hvað samtakamáttur er. Allir þeir sem komu nálægt búsáhaldabyltingunni vita að henni var ekki stýrt. Hún var sjálfsprottin.

Þingmannaþríeykinu dettur ekki í hug að fólk geti risið upp að eigin frumkvæði og haft pólitísk áhrif. Þau eru föst ofan í flokkspólitískum sandkassa. Nema reyndar Vigdís. Hún stingur höfðinu í steininn.


Alþingisvaktin hefur áreiðanlegar heimildir fyrir því að hér sé Gunnar Bragi Sveinsson að miðstýra arabíska vorinu.

Brandarinn er búinn, Vigdís

Þegar Vigdís Hauksdóttir, þingkona Framsóknarflokksins tjáir sig talar hún eins og 12 ára barn. Fyrst var þetta fyndið en nú er þetta orðið eins og margsagður og leiðinlegur brandari.

Tökum smá upprifjun.

Hvað hafði Vigdís Hauksdóttir að segja um iðnaðarsaltsmálið, þegar Matvælastofnun stóð Ölgerðina að verki við að setja svokallað iðnaðarsalt í gosdrykki?


Það var og. Vigdís ber afar mikla virðingu fyrir hefðum og venjum, sérstaklega þeim er tengjast forseta lýðveldisins. Hvílíkt hneyksli að fjölmiðlar dirfist að fjalla um hefðirnar og kostnað þeirra:

og aftur:


Ferlegt mál. Kratasamsæri gegn forsetanum. Venjulega er talað um handhafa forsetavalds, ekki handhafa forseta (enginn er látinn halda á forsetanum) – en ekki er óalgengt að Vigdís fari frjálslega með tungumálið og finni upp ný orðasambönd.

 

Vigdís er pirripú á krötum og fjölmiðlum. En hvað finnst henni um háskólafólk sem tekur þátt í þjóðmálaumræðunni?


Þetta eru merkileg sjónarmið. Í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis eru fræðimenn sérstaklega hvattir til að taka aukinn þátt í umræðunni. Skilaboð Vigdísar til þeirra eru hins vegar þessi: Ef þið dirfist að hallmæla Framsóknarflokknum þá ætti að vísa ykkur úr starfi.

Hér er nýlegur status frá Vigdísi:


Í fyrsta lagi eru hér þrjár stafsetningarvillur. Róbert heitir Róbert Marshall, í orðinu dómkirkja er aðeins eitt r og Siðmennt er sérnafn með stórum staf. Þá ber að nefna að rangt er að tala um að guma sig af einhverju. Hins vegar er vel hægt að guma af einhverju. Ekkert afturbeygt fornafn kemur þarna á eftir.

Í öðru lagi er boðskapur þessa Facebook-statuss gjörsamlega fráleitur. Alþingisvaktin fagnar því innilega að þingmenn neiti að sitja undir ljótum kristilegum boðskap í boði ríkiskirkju sem um árabil hefur staðið í vegi fyrir mannréttindum á Íslandi. Og með fullri viðingu fyrir Siðmennt þá er hið besta mál að skella sér á kaffihús í stað þess að hlusta á hugvekju um heilbrigði þjóðar.

En nei. Vigdísi varð ekki um sel. Og hún útskýrði hvers vegna í útvarpsþættinum Harmageddon í gær. Alþingisvaktin ræður fólki frá því að hlusta á viðtalið í heild, sálarlífsins vegna. En af því sem hún sagði ber eftirfarandi hæst.

„Ég vona að þið hafið báðir fermst strákar. Er það ekki?“ Hún sagði þetta í alvörunni.

Þegar þáttastjórnendur minntust á kvenfyrirlitningu og hommahatur í Biblíunni svaraði Vigdís þeim eins og sönn teboðsdrottning: „Mér finnst þú frekar vera að lesa upp úr trúarriti múslima.“ Það er ekki að ástæðulausu sem gárungarnir hafa kallað Vigdísi Hauksdóttur Söruh Palin Íslands.

Kristindóminum til varnar benti Vigdís á að „við höldum jól á Íslandi.“ Alþingisvaktin hvetur Vigdísi til að lesa bókina Saga daganna eftir Árna Björnsson, þjóðfræðing.

Já, og svo sló botninn úr tunnunni: „Við verðum að standa vörð um grunngildi okkar, Þjóðkirkjuna, þjóðtunguna, náttúruauðlindirnar,“ sagði Vigdís Hauksdóttir, konan sem er þjóðþekkt fyrir að misþyrma íslenskri tungu. Og vel á minnst tilheyrir hún flokki sem hefur sérstaklega lagt sig fram við að blóðmjólka íslenskar náttúruauðlindir.

Ástandið hlýtur að vera svart fyrir Vigdísi. En sem betur fer á hún nóg af ljósaperum. Og rasshausar Íslands, smáfuglarnir á amx.is, völdu hana þingkonu ársins 2009:

Fyrst var þetta gott grín. En nú er brandarinn löngu hættur að vera fyndinn.

Kæra Vigdís. Gerðu þjóð þinni greiða og finndu þér annan starfsvettvang.

Allir þeir sem vilja fylgjast með Alþingisvaktinni eru eindregið hvattir til að læka hana á Facebook (sjá hér til hægri). Þannig má stækka lesendahópinn.

Lúðalegasta kjördæmapot í heimi


Þingmenn Suðurkjördæmis hafa sterkar skoðanir á því hvernig á að reka fjölmiðla. Helst vilja þeir fá að sjá um mannaráðningar á RÚV. Í gær sendu þeir sameiginlegt bréf til Páls Magnússonar, útvarpsstjóra og Óðins Jónssonar, fréttastjóra RÚV þar sem þeir lýstu óánægju sinni með uppsögn Magnúsar Hlyns Hreiðarssonar sem sinnt hefur starfi fréttaritara RÚV á Suðurlandi um árabil.

Alþingisvaktin veit ekki alveg hvort hún á að hlæja eða gráta. Þetta er ósköp saklaust svo sem, en ætli þetta sé ekki eitthvert aumasta og lúðalegasta kjördæmapot allra tíma? Eftirtaldir þingmenn eiga heiðurinn:


Kannski væri bara skemmtilegra að búa á Íslandi ef þingmenn Suðurkjördæmis fengju að stjórna rekstri Ríkisútvarpsins eins og hann leggur sig.

Björgvin G. Sigurðsson, fyrrverandi viðskiptaráðherra sem var skilinn út undan þegar rætt var um viðskiptamál, gæti tekið við stöðu fréttastjóra. Þannig gæti hann skrifað sögu hrunsins upp á nýtt.


Árni Johnsen, sérfræðingur í meðferð almannafjár og sérlegur baráttumaður gegn ástaratlotum samkynhneigðra, gæti tekið við af Páli Magnússyni sem útvarpsstjóri. Á gamlárskvöld gæti hann sungið eins og honum einum er lagið og flutt hjartnæm ávörp um kynferðislegt ofbeldi vinstristjórnarinnar á sjávarútveginum.


Allir þeir sem vilja fylgjast með Alþingisvaktinni eru eindregið hvattir til að læka hana á Facebook (sjá hér til hægri). Þannig má stækka lesendahópinn til muna, enda hefur hvert einasta læk margföldunaráhrif.

Vigdísarhóf


Alþingisvaktin hvetur alla til að mæta til Vigdísarveislu. Heimildir okkar herma að þar verði malbiki kastað úr fjárhúsi.