Samsæriskenning framsóknarmanna
by Althingisvaktin
Gunnar Bragi Sveinsson, þingmaður Framsóknarflokksins hefur kvartað undan því að fjölmiðlar veiti honum ekki nægilega athygli. Í dag ætlar Alþingisvaktin að reyna að bæta úr því og fjalla um Gunnar og flokkssystkini hans.
Það er eflaust ýmislegt sem er óuppgert varðandi búsaáhaldabyltinguna. Það fyrsta sem kemur upp í hugann er groddalegt lögregluofbeldi sem tugir eða hundruðir mótmælenda ættu að geta borið vitni um. Aldrei var farið ofan í saumana á framferði lögreglunnar í desember 2008 og janúar 2009. Óskandi væri að þingmenn tækju sig til og krefðust slíkrar rannsóknar.
Þessa glæsilegu mynd tók Jóhannes Gunnar Skúlason.
Framsóknarmenn eru með hugann við annað. Nú, fjórum árum eftir búsáhaldabyltinguna, vaða þeir ennþá uppi með samsæriskenningar um að búsáhaldabyltingunni hafi verið miðstýrt. Gunnar Bragi gerir meira að segja því skóna að þingmenn hafi stofnað lífi lögreglumanna í hættu.
Þau Gunnar Bragi Sveinsson, Vigdís Hauksdóttir og Sigurður Ingi Jóhannsson hafa þrisvar sinnum lagt fram þingsályktunartillögu þess efnis að „framferði einstakra þingmanna í búsáhaldabyltingunni verði rannsakað og það kannað hvort þeir kunni að hafa bakað sér refsiábyrgð.“ Ef Gunnar Bragi, Vigdís og Sigurður Ingi telja í alvörunni ástæðu til að ætla að þingmenn hafi brotið lög, af hverju kæra þau þá ekki þingmennina? Hvaða grín eru þessar þingsályktunartillögur?
Samsæriskenning framsóknarmanna byggir á því að einhverjir þingmenn hafi sést horfa út um glugga á þinghúsinu og tala í síma á meðan mótmæli áttu sér stað fyrir utan. Þetta er auðvitað grátbroslegt. Kannski gott dæmi um þá rökhyggju Framsóknarflokksins sem Sigmundi Davíð er tíðrætt um þessa dagana.
Samsæriskenning framsóknarmanna afhjúpar þá. Þeir vita ekkert um búsáhaldabyltinguna. Þeir skilja ekki hvað samtakamáttur er. Allir þeir sem komu nálægt búsáhaldabyltingunni vita að henni var ekki stýrt. Hún var sjálfsprottin.
Þingmannaþríeykinu dettur ekki í hug að fólk geti risið upp að eigin frumkvæði og haft pólitísk áhrif. Þau eru föst ofan í flokkspólitískum sandkassa. Nema reyndar Vigdís. Hún stingur höfðinu í steininn.
Alþingisvaktin hefur áreiðanlegar heimildir fyrir því að hér sé Gunnar Bragi Sveinsson að miðstýra arabíska vorinu.