Blóðfórn Steingríms

by Althingisvaktin

Þær eru ófáar fórnirnar sem Steingrímur J. Sigfússon hefur þurft að færa á altari ríkisstjórnarsamstarfsins við Samfylkinguna.

Ein ömurlegasta fórnin er friðarhugsjónin sem flokkurinn var að miklu leyti stofnaður í kringum. Steingrímur barðist ötullega gegn aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu árum saman.

Árið 2006 kom út bók eftir Steingrím, Við öll: Velferðarsamfélag á tímamótum. Á bls. 142 skrifar hann:

Vopnleysis- og friðararfleifð þjóðarinnar og sú staða sem eðlilegast er að Íslendingar taki sér í öryggismálum, samrýmist ekki aðild að hernaðarbandalagi. […] Vera okkar í NATO þvælist fyrir því að Ísland verði eitt af hinum herlausu löndum, vopnlaust og friðlýst

Svo gerðist það skyndilega þremur árum síðar að Steingrími bauðst ráðherrastóll. Og hvað hefur gerst eftir valdatöku Vinstri grænna og Samfylkingarinnar? Jú, hernaðarútgjöldin hafa aukist til muna. Í stjórnartíð hinna friðelskandi Vinstri grænna hefur Ísland borgað meira til Atlantshafsbandalagsins en nokkru sinni fyrr. Skýrist það mestmegnis af veiku gengi krónunnar.

Í frétt DV frá því í gær segir orðrétt:

Undanfarin ár hafa framlög Íslands til NATO tvöfaldast frá því sem var fyrir hrun. Mesta hækkunin átti sér stað árið 2010 en þá fóru framlögin úr 87,6 milljónum króna upp í 216,4 milljónir króna.

Samfylkingin hefur ekki ennþá náð að hrista af sér þann hægrikrataskap og Blair-isma sem gegnsýrt hefur flokkinn frá því að hann var stofnaður. Þannig finnst mörgum flokksmanna eðlilegt að milljónir skattfjár renni til hernaðarsambands sem er þekkt fyrir fátt annað en að slátra saklausu fólki og gera vont ástand í stríðshrjáðum löndum ennþá verra.

Vissulega fyrirfinnst Samfylkingarfólk sem er andsnúið NATO. En þessi hópur lætur friðarmálin mæta afgangi. Afstaða flokksforystunnar til þessara mála olli því að Ísland var gert að ábyrgðaraðila loftárásanna í Líbíu sem urðu um það bil 1100 almennum borgurum að bana. Að því leytinu til komust stjórnarherir Gaddafis ekki með tærnar þar sem NATO-ríkin höfðu hælana. Það er svo kaldhæðni örlaganna að samverkamaður Blair og Bush í Íraksstríðinu, Davíð Oddsson, skuli hafa fárast yfir því.

Oft er talað um blóðugan niðurskurð þegar dregið er úr útgjöldum til heilbrigðis- og velferðarmála. Að sama skapi mætti tala um blóðug ríkisútgjöld þegar peningar renna til hernaðarsambanda. Ætli Steingrímur hafi lesið þessa frétt? Og ef svo er, hvernig ætli honum hafi liðið?