Mannvitsbrekkan Tryggvi
by Althingisvaktin
Tryggvi Þór Herbertsson ætlar að sækjast eftir endurkjöri á Alþingi. Sögusagnir herma að hann sé fjármálaráðherraefni Sjálfstæðisflokksins – enda doktor í hagfræði. Það er nokkuð áhyggjuefni, því þrátt fyrir doktorsgráðuna kann hann ekki að reikna einföldustu hagfræðidæmi og virðist ekki vita hvernig þrepaskipt skattkerfi virkar.
Svo virðist sem Tryggvi þurfi á endurmenntun að halda. Hagfræðikunnátta hans er ekki aðeins aðhlátursefni á Íslandi heldur hefur hróður hans borist víða um heim með kvikmyndinni Inside Job, sem fjallar um fjármálahrunið. Þar eru Tryggvi og bandaríski prófessorinn Frederic Mishkin teknir á beinið fyrir furðulega skýrslu þeirra um íslenskt efnahagslíf árið 2006 sem þeir fengu 15 milljónir króna fyrir. Boðskapur skýrslunnar var sá að hér væri allt í stakasta lagi – sem er hlægilegt þegar litið er til þeirra vísbendinga sem hrúgast höfðu upp á þessum tíma um að allt væri að fara til fjandans.
Hér má sjá umfjöllun kvikmyndarinnar um Mishkin og Ísland:
Alþingisvaktin hefur áður fjallað um kaldar kveðjur Tryggva Þórs til Norðmanna í tengslum við fjöldamorðin þar í landi. Þá hefur einnig verið fjallað um það hvernig hann talaði á skjön við sjálfan sig um málefni tengd ríkisábyrgð bankanna.
Nú skulum við rifja upp nokkur skemmtileg gullkorn sem hrotið hafa af vörum Tryggva:
„Það á tvímálalaust að fjárfesta í fyrirtækjum sem starfa eftir lögum og reglum ef þau eru góðir fjárfestingarkostir, sama hvort þau framleiða vopn, tóbak eða barnableyjur,“ sagði Tryggvi um þá ákvörðun lífeyrissjóðanna að taka upp siðferðislegar viðmiðanir við val á fjárfestingavalkostum. Hugmyndafræði Tryggva leyfir ekki slíkar hindranir; markaðurinn er heilagur, laissez faire!
„Það verður ekki fyrr en uppgjör og afskriftir ársins líta dagsins ljós sem menn fara að slaka á og þá fyrst mun lausafé aukast á ný og fjármálakerfið leita í eðlilegra horf,“ sagði hann sem forstjóri Askar Capital í janúar 2008. Þetta ár tapaði Askar Capital 12,4 milljörðum. Brilljant árangur.
„Við hægrimenn trúum að eignarréttur sé einn af stólpum vestræns samfélags á meðan sumir vinstri menn segja að sameign sé mun betri. Við sáum af reynslunni í Sovétríkjunum og Austur-Þýskaland að sameign gengur ekki upp,“ – um einkavæðingu á vatni. Tryggvi þurfti að teygja sig alla leið til Sovétríkjanna til að réttlæta hana.
„Ég veit ekki alveg hvaða hagsmunaárekstrar hefðu getað orðið“ – sagði Tryggvi um það að hafa þegið ríflega 16 milljónir króna frá Askar Capital á meðan hann var efnahagsráðgjafi ríkisstjórnarinnar. Tryggvi þáði þrjátíufalt mánaðarkaup sitt frá fjárfestingabanka án þess að sjá neina hagsmunaárekstra við það. Sjálfstæðismenn boða markaðsfrelsi að nafninu til. En menn eins og Tryggvi Þór eru alltof innviklaðir í viðskiptalífið til að þeim sé treystandi til að tryggja eðlilega samkeppni (sem er nótabene grundvöllur þess að markaðsfrelsið sé neytendum til hagsbóta).
„Hvernig nennirðu að elta ólar við þennan rugludall Hannes? Hetjan mígur í öll vatnsból sem hann rekst á – sannkallaður brunnmígur,“ skrifaði Tryggvi Þór við athugasemd Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar á bloggsíðu Teits Atlasonar. Málefnalegur og sómakær þingmaður hann Tryggvi.
Á íslensku wikipediusíðunni er vönduð grein um Tryggva Þór. Þar er aðkomu hans að blóðmjólkun bótasjóðs Sjóvár lýst á þessa leið:
Askar Capital höfðu umsjón með fjárfestingaverkefnum fyrir Sjóvá og Milestone. Verðmæti verkefnanna hljóp á hundruðum milljarða króna og voru meðal annars bótasjóðir Sjóvár notaðir til að fjármagna verkefninin. Eftir að upp komst um notkun bótasjóðanna gerði embætti sérstaks saksóknara húsleit í höfuðstöðvum Sjóvár, í höfuðstöðvum Milestone, á heimilum allra fyrrverandi stjórnarmanna og á heimili Þórs Sigfússonar, fyrrverandi forstjóra Sjóvár.
Var það gert í tilefni rannsóknar á stórfelldu fjármálamisferli sem tengist starfsemi Milestone og Sjóvár. Rannsóknin snerist meðal annars að meintri misnotkun á bótasjóði Sjóvár en um sjóðinn gilda strangar reglur hvað varðar not á fé úr honum til fjárfestinga.
Tryggvi Þór kveðst hafa vitað að bótasjóðir væru notaðir í fjárfestingarnar. Hann hafi gert sér fullkomlega grein fyrir því að verið væri að kaupa eignir inn í bótasjóðina, fjárfest hefði verið í ýmsu með slíkum sjóðum. Aftur á móti telur hann að notkun bótasjóðanna til fjárfestingar hafi verið lögleg.
Svo fór þó að fjárfestingar fyrir fjármuni bótasjóðsins enduðu illa og árið 2008 var eignastaða Sjóvá var orðin það slæm að félagið átti ekki fyrir vátryggingaskuld sinni en það eru þeir fjármunir sem tryggingafélag skuldar viðskiptavinum sínum vegna greiddra iðgjalda, svonefndur bótasjóður. Á endanum þurfti íslenska ríkið að lána Sjóvá um 12 milljarða króna af fé skattgreiðenda sumarið 2009 svo það uppfyllti skilyrði um gjaldþol og gæti staðið við vátryggingaskuldbindingar sínar.
Það er sorglegt að Tryggvi Þór Herbertsson sé á meðal þeirra sem fara með löggjafarvaldið á Íslandi. Alþingisvaktin hvetur Tryggva eindregið til að leggja þingstörfin á hilluna og skella sér í endurmenntun.
Allir þeir sem vilja fylgjast með Alþingisvaktinni eru eindregið hvattir til að læka hana á Facebook (sjá hér til hægri). Þannig má stækka lesendahópinn.