Sirkús í skrípalandi

by Althingisvaktin

Þingsetning fór fram í gær.

Ballið byrjaði í Dómkirkjunni. Þar hlýddu þingmennirnir á þennan brosmilda mann sem trúir á ósýnilegar verur.  Hann sagði þeim að kirkjan væri súrdeig. Gott veganesti fyrir þingstörfin. Súrdeig.

Sumir hlustuðu á hugvekju hjá Siðmennt sem var einhvers konar veraldleg hliðstæða þess sem átti sér stað í kirkjunni. Aðrir buðu syndinni í kaffi, Vigdísi Hauksdóttur til mikillar skapraunar.

Eftir messu fór þingsetningin formlega fram. Ólafur Ragnar Grímsson, eilífðarforseti, átakafíkill, slyngasti áróðursmeistari Íslands og einn þaulsætnasti þjóðarleiðtogi heims ávarpaði þingmenn. Hann bauðst til að hjálpa þeim við að endurreisa traust þjóðarinnar á Alþingi. Hann var víst ekki að grínast.

Ólafur Ragnar gæti svo sem sómað sér vel sem upplýsingafulltrúi þingsins. Hann kann að minnsta kosti að ljúga að almenningi. Það skilaði sér þann 31. júní.

Nokkrir mótmælendur stilltu sér upp fyrir utan þinghúsið áður en þingsetningin hófst. Í fyrra var það sama uppi á teningnum og þingmenn fengu vænan skammt af málningu (og guð má vita hvaða vökvum) yfir sig. Einhver fábjáninn kastaði eggi í Árna Þór Sigurðsson, blásaklausan friðarsinna. Nú tókst lögreglunni að koma í veg fyrir svoleiðis lagað með víggirðingu. Og fyrir vikið sökuðu mótmælendur lögreglu um aðför að lýðræðinu.

Hinar ástsælu Tunnur boða til mótmæla í kvöld. Vonandi líka kórinn. Þá verður sirkúsinn fullkomnaður.

 

Það er gaman að búa í skrípalandi. Alltaf eitthvað skemmtilegt að ske.