Slær Ögmundur Jónasson Íslandsmetið?
by Althingisvaktin
Hrunverjinn Ögmundur Jónasson má þola fúkyrðaflaum þessa dagana eftir að kærunefnd jafnréttismála kvað upp þann dóm að hann hefði brotið jafnréttislög. Málinu hefur verið líkt við ráðningu Jóns Steinars Gunnlaugssonar í ráðherratíð Björns Bjarnasonar en færð hafa verið nokkuð sannfærandi rök gegn slíkum samanburði. Ljóst er hins vegar að viðbrögð Ögmundar við dóminum einkennast ekki af neinni sérstakri auðmýkt.
Skorað hefur verið óbeint á Ögmund að segja af sér. Hann hefur ekki gerst líklegur til að taka áskoruninni en hafa ber í huga að Ögmundur er ólíkindatól. Fari svo að Ögmundur slái til verður hann fyrstur Íslendinga til að segja af sér tveimur mismunandi ráðherraembættum. Þannig gæti Ögmundur tryggt sér sess í sögubókunum.