Bjarni Benediktsson á landsþingi Repúblikanaflokksins
by Althingisvaktin
Það er ekki aðeins þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, Ragnheiður Elín Árnadóttir, sem er stödd á landsþingi Repúblikanaflokksins í Tampa. Þar er einnig formaðurinn sjálfur, Bjarni Benediktsson sem lætur sig dreyma um forsætisráðherrastólinn þessa dagana. Samkvæmt Fréttablaðinu er Hermann Guðmundsson, fyrrverandi forstjóri N1 með í för.
Þetta vekur upp ófáar spurningar. Finna forsprakkar Sjálfstæðisflokksins samhljóm með Repúblikanaflokknum? Ætla þeir að draga lærdóm af Romney og Ryan?
Ef svo er má ætla að Bjarni Benediktsson og Ragnheiður Elín Árnadóttir mæti galvösk heim til Íslands og berjist af krafti gegn fóstureyðingum, réttindum samkynhneigðra og valfrelsi kvenna.
Sjálfstæðisflokkurinn er vanur að fylgja Repúblikanaflokknum að málum þegar fjöldamorð í fjarlægum löndum eiga í hlut. Það verður spennandi að sjá hvort Repúblikönum tekst líka að sannfæra Bjarna og Ragnheiði um ágæti dauðarefsinga og almennrar byssueignar.
Á meðan Bjarni og Ragnheiður tralla í Tampa situr gamall uppgjafarráðherra límdur við tölvuskjá og gónir á myndbönd af landsþinginu. „Sjálfstæðisflokkurinn hefði gott af að tileinka sér, þótt ekki væri nema brot af þeim sóknarþunga sem einkenndi flokksþing repúblíkana í Tampa,“ skrifar Björn Bjarnason.
Hver verða viðbrögð frjálslyndra hægrimanna í Sjálfstæðisflokknum við aðdáun flokksforystunnar á stjórnmálaafli sem er leiðandi í baráttunni gegn mannréttindum í heiminum? Ætli óbreyttir flokksmenn kippi sér ekkert upp við það að Sjálfstæðisflokkurinn sé bendlaður við Repúblikanaflokkinn með þessum hætti?