Getnaðarlegur Bjarni á alþýðuborði

by Althingisvaktin

Því verður varla neitað að Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, er harla kynþokkafullur á forsíðu Nýs lífs í dag. Með blik í augum mænir hann á hausttískuna og lætur sig dreyma um mjólkurföt, förðun og marokkóskar söngkonur.

En hið þráðbeina brosa Bjarna er sveipað ákveðinni dulúð.  Það er smá Mónu Lísu-bragur yfir því. Um hvað er hann að hugsa? Horfir hann glaðbeittur fram á veginn og hlakkar til að varpa skattbyrðinni yfir á lágtekjufólk, eins og gert var í 18 ára stjórnartíð Sjálfstæðisflokksins? Er Bjarni að velta því fyrir sér hvernig megi hlífa útgerðaraðlinum við veiðigjaldi ríkisstjórnarinnar?

Af hverju er forríkur Garðbæingur að halla sér makindalega aftur á gömlu, veðruðu smíðaborði sem myndi sóma sér betur í Góða hirðinum en á forsíðu eins víðlesnasta glanstímarits landsins?

Er þetta borðið sem Bjarni og flokksmenn hans ætla að slá endurskoðun stjórnarskrárinnar út af? Eða er þetta tilraun Bjarna til að setja allt upp á borðið?

Ótal spurningar vakna. Ætli Hreinn Loftsson, aðaleigandi Birtings (fyrrum trúnaðarmaður Sjálfstæðisflokksins, aðstoðarmaður Davíðs Oddsonar og formaður einkavæðingarnefndar) hafi fyrirgefið Bjarna símaötin og snúist á sveif með flokknum skömmu fyrir kosningar?

Ekki eru nema tvær vikur síðan Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir formaður Heimdallar prýddi forsíðu Vikunnar og því verður spennandi að sjá hvaða flokksgæðingur það verður næst sem brosir til kjósenda. Svo virðist sem gríðarleg eftirspurn sé eftir snoppufríðum Sjálfstæðismönnum framan á glanstímarit landsins.