Hræsnari vikunnar: Tryggvi Þór Herbertsson
by Althingisvaktin
Finnst engum athugavert að safna börnum og unglingum kerfisbundið saman á afskekktri eyju í þeim tilgangi að innræta þeim tiltekna flokkspólitíska stjórnmálaskoðun???
Þetta skrifaði Tryggvi Þór Herbertsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, á Facebook-síðu sína sama dag og Anders Behring Breivik var dæmdur í lífstíðarfangelsi fyrir fjöldamorðin í Noregi. Ummæli Tryggva eru ósmekkleg, ekki síst vegna tímasetningarinnar. Illugi Jökulsson gerir þessu góð skil á vefsíðu sinni:
Að nefna þetta í gær var eins og ef dauðadrukkinn ökufantur hefði keyrt niður barnið mitt á götuhorni og svo hefði Tryggvi Þór mætt í sjálfa erfidrykkjuna og klöngrast þar upp á stól síðla kvölds og heimtað að fá að halda ræðu: „Bölvuð fyllibyttan. En finnst engum athugavert að krakkanum skuli hafa verið hleypt út í stórhættulega umferðina?“
Bjánaskapurinn blasir við. Og kannski er hræsnin líka flestum augljós. Tryggvi tilheyrir jú stjórnmálaafli sem er þekkt fyrir að smala saman ungmennum og gefa þeim bjór til að afla fylgis.
Það hlægilega er þó að Tryggvi hefur tekið beinan þátt í stjórnmálaskóla fyrir ungt fólk. Hann og Kristján Þór Júlíusson, þingmaður sama flokks, settu stjórnmálaskóla Sjálfstæðisflokksins á Akureyri þann 27. febrúar síðastliðinn. Þar voru haldin námskeið fyrir börn og unglinga, meðal annars undir yfirskriftinni „Grunngildi sjálfstæðisstefnunnar“ og „Saga Sjálfstæðisflokksins“.
Eiga menn eins og Tryggvi Þór Herbertsson heima á Alþingi Íslendinga?